„ ... allt auðvitað uppspuni með rætur“ 

Mynd: Samsett mynd/RÚV / Partus

„ ... allt auðvitað uppspuni með rætur“ 

15.11.2020 - 23:43

Höfundar

Það eru hendingar sem þessar sem beinlínis líma lesandann við ljóðin í bókinni Havana eftir Mariu Ramos, sem inniheldur 39 númeruð ljóð án frekari titla. Í þessari bók er sögð saga en það er engin venjuleg saga. Hér eru minningar jafnt sem kyrrstaða núsins, óræð þrá en líka einurð og óræður uggur. Hér er stelpa á ýmsum skeiðum að skoða og gaumgæfa hvar hún er stödd samtímis því að vera á ferðalagi í eigin tilveru og tilveru annars fólks.

í tunglsljósi
              hnullungur
í maganum
hjartanu
hnjánum

slengist á milli
innyfla svo
ég finni til

allt auðvitað
uppspuni
með rætur

Kápa bókarinnar Havana er fremur óvenjuleg fyrir íslenska ljóðabók einmitt núna. Kápan, sem Luke Allan gerir, sýnir málverk eftir breskan málara, John William Godward að nafni, sem í kringum aldamótin 1900 málaði í nýklassískum stíl. Á myndinnni sést ung kona sem hallar sér slök upp að marmara vegg og virðist lokka til sín skjaldböku með kirsiberjum. Það einhver saga í þessari mynd, það er í henni hiti  og eitthvað órætt, en líka margir tímar og einkennileg firrð í bakgrunninn.  María Ramos segir í viðtalinu hér að hún hafi ekki valið þessa mynd en „eftir að ég sá þessa mynd kom engin önnur kápumynd til greina,“ sem við lestur bókarinnar verður fullkomlega rökrétt. Ljóðin í ljóðabókinni Havana eru nefnilega lokkandi og heit, í þeim búa margir tímar; í bakgrunninn er einkennileg firrð og þar er djúp saga. 

„Ég vildi hafa þráð í bókinni allri. En það gerðist líka einhvern veginn náttúrulega þegar ég fór að setja bókina saman þá kom þessi sterki þráður í ljós fyrir augunum á mér. (... ) ljóðin voru ekki upphaflega öll án titils, en mér fannst fara betur í bókinni að hafa þau aðeins með númerum.“ 

Í upphafi bókarinnar, í ljóði númer 1,  erum við stödd í gömlum tíma

hér er
rafha-eldavél
og ryðgaður sturtuhaus
gömul bók
um ættfræði
og tréflauta
(...)

Síðar í þessu fyrsta ljóð segir svo um drauma

draumar sem
rætast þar sem
draumar hafa
dáið
eru draumar
sem enginn
trúir

fyrir utan
gluggann
hlaupa skrækjandi
kát börn
sem hoppa
upp og niður
á trampólínum
þegar veðrið
er gott.

Í næsta ljóði eru ljóðin svo mætt

hér eru
hilluvonir og þrár 
í læstum skápum
ofan í kjallara
undir drasli
margra ára gömlu
drasli

Orðið „hilluvonir“ vekur athygli og skáldið skýrir, „þetta orð á kannski eitthvað skilt við skúffuskáld, vonir og þrár sem þú þorir ekki taka fram og geymir bara í hillum.“  

Byrjun bókarinnar markar með öðrum orðum upphaf einhvers konar vegferðar og hér koma líka beinlínis ferðalög við sögu. Það er ferðast til Aþenu en einnig og kannski auðvitað til Havana sem einhverjir lesendur þessarar bókar hljóta að staldra við. María Ramos á rætur í Havana en góð skáldkona sem við Íslendingar eigum öll, Ingibjörg Haraldsdóttir, sem orti svo fallega um hitann og hrynjandina í Havana er amma Maríu Ramos og Kristín Eiríksdóttir ljóðskáld þar með frænka hennar. María lætur það ekki trufla sig.

 „Ég útiloka þær alls ekki og amma er örugglega ástæðan fyrir því að ég skrifa. Ég skrifaði sögur hjá henni jafnvel áður en ég kunni sjálf að skrifa; frá henni kom líka alltaf fullt af bókum sem hún vildi að ég læsi. Nafnið á bókinni Havana vísar til þess, er einhvers konar homage. (...) Svo urðu mörg ljóðanna til á grísku eyjunni Hydru þar sem dvaldi með Stínu frænku. Á þessari eyju voru engir bílar, bara asnar og þessi kyrrð varð mikill innblástur.“

Havana er þó engin ferðabók heldur þvert á móti tilvistarleg, jafnvel háspekileg í þeim oft svo hvunndagslegu hlutum sem ort er um.  „Ég fæ oft orð á heilann, sem ég þarf að koma í setningu og þegar ég sest niður þá held ég áfram og úr verður ljóð. Ég er yfirleitt ekki búin að hugsa fyrirfram um yrkisefni, en það skýrist síðan þegar ég fer að laga ljóðið til, sem gerist yfirleitt löngu seinna.“

María Ramos varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir tveimur árum og stundar nú nám í íslensku með ritlist sem aukagrein við Háskóla Íslands. Hún hefur auk Havana sent frá sér ljóðabókina Salt í seríunni Meðgönguljóð fyrir tveimur árum. Í augnablikinu segir hún námið taka mikinn tíma og þá skrifi hún ekki eins mikið og hún vilji og jafnvel þurfi: „Mér líður stundum eins  svikara því yfirleitt skrifa ég næstum því á hverjum degi.“

María hefur auk þess að yrkja ljóð líka skrifað smásögur og segist vonast til að einn daginn muni hún líka skrifa skáldsögu. Ljóðin eru þó hennar form í augnablikinu líkt og ljóðin voru aðall ömmu hennar, Ingibjargar Haraldsdóttur, sem María Ramos greinilega hugsar til í samhengi þessarar bókar Havana.

ég sé ömmu
á rauðum buxum
arka um útlensk stræti
með hökuna upp
í loft
hugsa um stúlku
sem enn er
ekki til

hugsa um hana
arka um úlensk
stræti með
hökuna upp í 
loft

María Ramos er ekki síður djörf en amma hennar og það verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni.