Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Minnst 110 drukknuðu undan Líbíuströndum á þremur dögum

epa08816394 A view of washed bodies of migrants that died at sea, on the coast of Alkhoms in Libya, 12 November 2020. Exact numbers of victims not yet determined as rescue operations by Libyan coast guards are still undergoing. According to IOM (International Organization for Migration), some 74 migrants have died.  EPA-EFE/STR ATTENTION: GRAPHIC CONTENT
Lík 74 flótta- og förumanna rak á land í vestanverðri Líbíu á fimmtudag, eftir að bát með minnst 120 manns innanborðs hvolfdi  Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 110 flóttamenn og förufólk drukknuðu á Miðjarðarhafi síðstu þrjá dagana og 74 lík hefur þegar rekið á strendur vestanverðrar Líbíu. Í frétt breska blaðsins Guardian segir að fjórir bátar flótta- og förufólks hafi farist við Líbíustrendur síðustu þrjá daga.

Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna eru líkin sem rak á land í gær úr einum þessara báta, sem sagður er hafa lagt frá landi með minnst 120 manns innanborðs í gær, fimmtudag, þar á meðal fjölda kvenna og barna. Strandgæslan og aðvífandi fiskimenn björguðu 47 manns í land þegar hann hvarf í hafið.

Skömmu síðar bjargaði áhöfnin á björgunarskipi Lækna án landamæra þremur konum úr sjónum; þeim einu sem lifðu af þegar bátur með 20 manns innanborðs sökk í sæ skammt undan Líbíuströndum.

Sex til viðbótar fórust þegar gúmmíbát með 100 manns hvolfdi á svipuðum slóðum á miðvikudag, og þrettán fórust þegar bátur þeirra sökk á þriðjudag, líka undan Líbíuströndum, en ellefu var bjargað.

SÞ vilja breytingar í stefnu ESB

Sameinuðu þjóðirnar hvetja Evrópusambandið til að auka á ný eftirlits- og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi . Flavio Di Giacomo, talsmaður Fólksflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir það brýnna nú en nokkru sinni fyrr að Evrópuríki skipti um kúrs í málefnum þeirra sem reyna að komast sjóleiðina frá Norður Afríku og „tryggja skilvirkar björgunaraðgerðir á sjó og koma í veg fyrir fleiri hörmungar.“

Það sem af er þessu ári, segir Di Giacomo, hafi „yfir 10.300 flótta- og förumenn verið stöðvaðir á hafi úti og sendir aftur til hinnar hættulegu Líbíu.“ 575 dauðsföll hafa verið staðfest á opnu hafi Miðjarðarhafsins á þessu ári, en talið er að mun fleiri hafi drukknað fjarri landi.

Evrópuríkin standa ekki fyrir neinni skipulagðri björgunarstarfsemi á þessu hafsvæði og aðeins eitt skip á vegum frjálsra félagasamtaka er á sveimi á Miðjarðarhafinu miðju. Þá eru flestar hafnir Evrópuríkja lokaðar björgunarskipum frjálsra félagasamtaka. Það á líka við um Ítalíu, þrátt fyrir fögur fyrirheit núverandi ríkisstjórnar um að snúa frá harðri stefnu fyrri stjórnar, þar sem þjóðernissinninn Matteo Salvini gegndi embætti innanríkisráðherra.