Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fé skorið á Grænumýri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Niðurskurður hófst á Grænumýri í Skagafirði í dag. Grænamýri er einn af fjórum bæjum sem riðuveiki fannst á í október. Þar eru um 1.100 fjár.

Guttormur Hrafn Stefánsson, bóndi á Grænumýri, segir að um 500 fjár verði lógað í dag, restinni síðar. Hann óskaði eftir að hræin yrðu brennd en ekki urðuð. Það sé áhrifaríkasta leiðin til þess að eyða veikinni. Þar af leiðandi verði skorið fram í tvennu lagi.

Guttormur andmælti aðgerðinni á þeim forsendum að áður en þær hæfust yrði að tryggja að niðurskurðurinn fengist að fullu bættur. Hann segir að það hafi ekki verið gert. Hann hafi ekkert í höndunum nema vilyrði frá starfsmönnum ráðuneytisins um að reglugerð og bætur verði lagfærðar. 

Strangt til tekið sé ekki ásættanlegt að skera féð fyrr en það sé tryggt, hann komist hins vegar ekki hjá því. Vandamálið segir hann að sé ekki nýtt enda hafi verið hamrað á því í mörg ár að bæturnar séu of lágar og dugi ekki til að koma upp nýjum bústofni. Það sé furðulegt hversu hægt þetta gangi því það sé í raun ekki flókið. Allar reikningsútfærslur og grunnar séu til, boltinn sé hjá landbúnaðarráðherra og það taki hann ekki nema stundarfjórðung að breyta þessari reglugerð. 

Á bænum eru líka um 40 geitur sem Guttormur þarf að lóga. Hann telur að engin fordæmi séu fyrir því að svo stórum hóp geita sé fargað og engar reglugerðir séu til um bætur fyrir geitur, hann viti því ekki hvernig það þróast. 

Hvernig líður þér í dag? „Mér líður ekki vel. Ég er tómur, andlaus, sorgmæddur.“ segir Guttormur Hrafn.