Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrýst á afsögn Mogens Jensens

12.11.2020 - 12:08
Mynd: DR-Tvisen / Danmarks Radio
Danska stjórnin er í miklum vandræðum fyrir að hafa látið lóga öllum minkum í landinu án þess að hafa til þess heimild í lögum. Staða Mogens Jensens, landbúnaðarráðherra, er afar völt en Mette Frederiksen, forsætisráðherra, er einnig gagnrýnd harkalega. Fréttaskýrendur segja að stuðningsflokkar minnihlutastjórnar Frederiksens ætli þó ekki að fella hana, með því félli stjórnin og enginn hafi áhuga á þingrofi og nýjum kosningum. 

Öllum minkum lógað vegna hætta af stökkbreyttri veiru

Eftir að stökkbreytt kórónuveira barst úr minkum í fólk ákvað danska stjórnin að öllum minkum á búum í landinu skyldi fargað, hvort sem smit hefðu greinst eða ekki. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, sagði hættu á að stökkbreytt veira gæti orðið til þess að bóluefni gegn veirunni yrðu gagnslítil. Slíkt gæti haft skelfilegar afleiðingar.

Mogens Jensen viðurkennir að ekki hafi verið lagaheimild

Um helgina viðurkenndi Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra, að ekki hefði verið heimild í lögum til þess að fyrirskipa að farga minkum á búum sem voru laus við kórónuveirusmit. Fyrirskipun stjórnarinnar var breytt í tilmæli á þriðjudag. Jensen baðst afsökunar og kvaðst ekki hafa vitað að lagaheimild skorti.

Stjórnarandstaðan gengur hart fram

Stjórnarandstaðan hefur krafist afsagnar Mogens Jensens og sagt hann hafa sagt ósatt og þingmaður Íhaldsflokksins sagði hann hafa eyðilagt heila atvinnugrein. Vandamál Jensens er að hann svaraði Ekstrablaðinu og TV2 skriflega á sunnudag og viðurkenndi að ekki hefði verið lagagrundvöllur fyrir ákvörðun stjórnarinnar að lóga minkastofninum Jensen heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki vitað það þegar ákvörðunin var tekin fyrir viku.
Stjórnmálaskýrendur í Danmörku telja flestir að erfitt verði fyrir Jensen að komast hjá afsögn.

Bakari hengdur fyrir smið?

Margir telja að verið sé að hengja bakara fyrir smið, ýmislegt bendi til þess að Mette Frederiksen hafi sjálf tekið ákvörðunina um að farga öllum minkastofninum. Christine Cordsen, fréttaskýrandi Danmarks Radio, segir að Frederiksen sé auðvitað líka í skotlínunni en stuðningsflokkar minnihlutastjórnar hennar velti henni ekki úr sessi. Ástæða þess sé að með því félli stjórnin og enginn hafi áhuga á þingrofi og nýjum kosningum.

Keyrði málið í gegn

Bakland Mette Frederiksen er á Norður-Jótlandi, hún er frá Álaborg svo málið stendur henni nærri og hún hefur viljað hafa hönd í bagga. Jarl Cordua, sem er hægra megin í pólitík í Danmörku og þekktur fyrir skrif sín um stjórnmál, segir í fréttaskýringu í Altinget.dk. að margt bendi til þess að Frederiksen hafi sjálf tekið ákvörðunina um að farga öllum minkastofninum. Hún hafi keyrt málið í gegn, keyrt yfir Mogens Jensen og ráðuneyti hans. Jakob Elleman-Jensen, leiðtogi Venstre, er ekki í vafa um hlutverk hennar. Hann benti á að Frederiksen hefði verið dómsmálaráðherra í fyrri ríkisstjórn og það væri óskiljanlegt og óhugsandi að hún hefði ekki leitt hugann að því hvort lagaheimild væri til staðar.