Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óprúttnir þykjast vera Páll Óskar

Mynd með færslu
 Mynd: Páll Óskar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við óprúttnum svikahröppum sem hafa komið fram í nafni Páls Óskars í þeim tilgangi að hafa fé af fólki og fá um það persónulegar upplýsingar. Í færslu á facebook-síðu embættisins segir að dæmigert sé að nota jafn viðkunnanlegan mann og Pál Óskar í þessum tilgangi.

Í færslunni segir að svindlið gangi út á að bjóða fólki að taka þátt í leik þar sem verðlaun séu í boði. Sá sem það býður þykist vera Páll Óskar og láti fólk ginnast er það leitt áfram á vefsíðu þar sem það er beðið um að skrá sig og veita ýmsar upplýsingar.

„Við vonum að enginn hafi fallið í þessa gryfju og tökum skýrt fram að þetta er Páli óviðkomandi, hann er líka þolandi í þessu samhengi,“ segir á facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar er fólk jafnframt hvatt til að vera ávallt á verðbergi gegn skilaboðum sem þessum.