Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nýtt spálíkan á leið í hagstæða átt

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Forsvarsmaður spálíkans Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins segir leiðina vera í rétta átt en það gangi hægt. Mikill vöxtur á faraldrinum í nágrannalöndunum geti sett strik í reikninginn ef ekki farið með gát. 
Mynd með færslu
 Mynd: covid.hi.is / RÚV -Geir Ólafss - RÚV
Línurit úr spálíkani HÍ til 1. desember.

Þetta línurit lítur sviðsmynd vísindamanna í nýju spálíkani út. Gert er ráð fyrir að smitstuðullinn haldist undir einum en það þýðir að hver smitaður smiti færri en einn annan. Rauða línan á efra línuritinu sýnir smitstuðulinn einn. 
Neðra línuritið sýnir glöggt þriðju bylgjuna og rauða línan þar þýðir fimm smit á dag. Fimm smit eða færri þýða að hægt er að komast á grænan lista hjá evrópsku sóttvarnastofnuninni. 

Smitstuðull farið lækkandi síðan um mánaðamótin

„Þetta er að fara áfram í hagstæða átt en bara hægt því miður, ekkert hratt,“ segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands og forsvarsm. spálíkansins. 

Þið horfið á smitstuðulinn, hann er vel undir einum?

„Já, matið er vel undir einum en svo er alltaf öryggi í kring sem endurspeglar þá óvissuna í tölunum og sveiflurnar.“

Efri óvissumörkin eru yfir einum, segir Thor, og því er ekki hægt að halda því fram að smitstuðullinn sé kominn undir einn.

„Og við sjáum alveg að smitstuðullinn hann var mjög hár bara um mánaðamótin og þetta hefur farið lækkandi. Og við erum sem sagt að vona að bara gera ráð fyrir að þetta haldist núna nokkuð stöðugt hvað varðar smitstuðulinn.“

Auknig smita í útlöndum gæti sett strik í reikninginn

Í spálíkaninu er gert ráð fyrir að ef að allt gengur vel og fólk tekur þátt í sóttvarnaaðgerðum að þá geti ástandið orðið hugsanlega viðunandi fyrsta sunnudag í aðventu þ.e. 29. nóvember. 

„Nú er að koma desember og einhver von kannski á auknum ferðalögum. Og ef við skoðum bara stöðuna á löndunum í kring þá er alveg gríðarleg aukning í tíðni þar og ástandið bara ekki gott. Ef það koma inn smit í gegnum landamærin að þá erum við aftur komin í slæma stöðu. Það má ekkert svo mikið bregða út af,“ segir Thor.