Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mikil flóð eftir þriðja fellibylinn á þremur vikum

12.11.2020 - 06:23
Erlent · Hamfarir · Asía · fellibylur · Filippseyjar · Veður
epaselect epa08814809 Motorists drive along a flooded road in Manila, Philippines, 12 November 2020. The Philippines' weather bureau has raised typhoon signal warnings for parts of the country's Bicol region, southern Luzon region and Metro Manila, as typhoon Vamco made landfall with sustained winds reaching 135 km per hour.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mikil flóð eru nú í og við Manila, höfuðborg Filippseyja, eftir að fellibylurinn Vamco fór þar yfir með stólparok og steypiregn. Fjöldi fólks forðaði sér upp á húsþök og kemst hvergi þar sem heilu hverfin mara í hálfu kafi. Yfirvöld vara við hættu á frekari flóðum, aurskriðum og mögulega sjávarflóðum í Manila og nágrenni, þar sem yfir 12 milljónir manna búa.

Vamco er þriðji fellibylurinn sem gengur yfir Filippseyjar á jafn mörgum vikum. Hann er ekki alveg jafn öflugur og hinir tveir fyrri og meðalvindhraði hefur hæst farið í 43 metra á sekúndu. Úrkoman sem hann ber með sér er hins vegar töluvet meiri og er farin að nálgast skýfallið sem fylgdi hitabeltisstorminum Ondoy, sem kostaði hundruð mannslífa á Filippseyjum árið 2009.

Flóð þar sem aldrei hefur áður flætt

Eitt dauðsfall hefur verið staðfest og þriggja er enn saknað, samkvæmt almannavörnum, og hjálparbeiðnum rignir inn. Borgarstjórinn í Marikina, útborg Manila, segir fjölda fólks þar fastan á annarri hæð húsa sinna eða uppi á þaki. „Sum svæði sem aldrei hefur flætt um áður, eins og í kringum ráðhúsið, eru nú á kafi,“ segir borgarstjórinn, sem býr sig undir hið versta.

Björgunarlið á vegum Rauða krossins og almannavarna hefur verið á ferð um borgina á bátum síðustu klukkustundir til að bjarga strandaglópum af svölum og þökum húsa.