
Mikil flóð eftir þriðja fellibylinn á þremur vikum
Vamco er þriðji fellibylurinn sem gengur yfir Filippseyjar á jafn mörgum vikum. Hann er ekki alveg jafn öflugur og hinir tveir fyrri og meðalvindhraði hefur hæst farið í 43 metra á sekúndu. Úrkoman sem hann ber með sér er hins vegar töluvet meiri og er farin að nálgast skýfallið sem fylgdi hitabeltisstorminum Ondoy, sem kostaði hundruð mannslífa á Filippseyjum árið 2009.
Flóð þar sem aldrei hefur áður flætt
Eitt dauðsfall hefur verið staðfest og þriggja er enn saknað, samkvæmt almannavörnum, og hjálparbeiðnum rignir inn. Borgarstjórinn í Marikina, útborg Manila, segir fjölda fólks þar fastan á annarri hæð húsa sinna eða uppi á þaki. „Sum svæði sem aldrei hefur flætt um áður, eins og í kringum ráðhúsið, eru nú á kafi,“ segir borgarstjórinn, sem býr sig undir hið versta.
Björgunarlið á vegum Rauða krossins og almannavarna hefur verið á ferð um borgina á bátum síðustu klukkustundir til að bjarga strandaglópum af svölum og þökum húsa.