Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vilja stöðva niðurskurð vegna riðu

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar vill stöðva niðurskurð vegna riðu á bænum Syðri-Hofdölum. Riða hefur ekki greinst í dýri á bænum, aðeins í aðkomuhrút sem þar var um skemmri tíma.

Landbúnaðarnefndin lýsir yfir áhyggjum af stöðunni í Skagafirði eftir að riða greindist þar á fjórum bæjum. Tímabært sé að endurskoða riðuvarnir hér á landi. 
Þegar hefur verið skorið niður á tveimur bæjum og tveir eru eftir, þar á meðal Syðri-Hofdalir þar sem eru um 800 fjár. Riða greindist í aðkomuhrút sem var skamman tíma á bænum. Nú er búið að lóga 161 grip sem komst í návígi við hrútinn en engin riða hefur greinst.

„Við viljum prufa að stoppa þennan niðurskurð á Hofdölum og halda fénu sér, að það komist ekki á aðra bæi og ekki í afrétt og sjá til í tvö, þrjú ár hvort einhver riða sé í því. Gera einhverja tilraun aðra en að farga.“ segir Arnór Gunnarsson, þjónustufulltrúi sveitarfélagsins.  

Það hafi sýnt sig að niðurskurður virki ekki enda skýtur riða upp kollinum aftur og aftur. Í bókun nefndarinnar segir meðal annars að nauðsynlegt sé að fara rækilega ofan í saumana á því hvort skipulögð og markviss hreinsun á býlinu og strangt eftirlit í tiltekinn tíma skili ekki sama árangri og niðurskurður, án fjárhagslegs tjóns fyrir bændur og ríkið. Arnór segir vel hægt að gæta þess að féð komist ekki nálægt öðru fé og nágrannar Syðri-Hofdala hafi þegar samþykkt að ekki verði skorið meira niður á bænum.