Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verðlag hækkar í COVID og eftirspurn eykst

11.11.2020 - 10:26
Mynd: RÚV / RÚV
Töluverðar verðhækkanir hafi orðið á ýmsum vörum í faraldrinum. Síðastliðið ár hefur verð á innfluttu og innlendu grænmeti hækkað um 12,5 prósent og innflutt mat- og drykkjarvara hefur hækkað um tæp 11%. Bensín hefur hins vegar lækkað um 7%. Frá því faraldurinn braust út hefur eftirspurn eftir raf- og heimilistækjum aukist um rösklega 50%. Þetta meðal þess sem kemur fram í samantekt sem verðlagseftirlit ASÍ vann fyrir Spegilinn.

Verðhækkanir tóku kipp

Þegar litið er á þróun vöruverðs frá því í október í fyrra kemur greinilega í ljós að verð tekur í mjög mörgum tilfellum kipp upp á við í mars eða þegar kórónuveirufaraldurinn hófst af alvöru. Verð á mat og drykkjarvöru hækkar um 7,4% á síðastliðnu ári. Meginhækkunin er frá mars og fram í október eða um 6 af hundraði. Húsgögn og heimilisbúnaður hefur hækkað um tæp 8% frá því í mars. Undir þessum lið eru til dæmis raftæki sem hafa hækkað um 13,6%. Bílar hafa hækkað um 8,7% frá því í mars og reiðhjól um tæp 11%.

Innfluttar vörur hækka meira

Það kemur ekki á óvart að verð á innfluttum vörum hefur hækkað meira en á innlendum vörum. Það á reyndar ekki við um bensín sem hefur lækkað um tæp 7% frá því í október í fyrra. Innflutt mat- og drykkjarvara hefur hækkað um 11% en sú innlenda um rúm 5%. Aðrar innfluttar vörur hafa hækkað um 6,9% en þær innlendu um 4,3%.

 

Gengið lækkar

Frá því í október í fyrra hefur gengi krónunnar lækkað um 16 af hundraði. Krónan hefur til dæmis veikst um 19% gagnvart Evru, um 14% gagnvart breska pundinu og um 11,6% gagnvart dollara. Gengisveikingin fór á fulla ferð í mars. Krónan styrktist örlítið í sumar en hefur síðan veikst aftur. En það er ekki bara hægt að skella skuldinni á gengið þegar kemdur að því að útskýra verðhækkanir. Auður Alfa Ólafsdóttir, verkaefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir að margir þættir hafi áhrif á verðlag. Gengið sé vissulega hluti af því.

„Það skiptir til dæmis máli að það sé samkeppni á markaði eða ekki. Ef það væri mikil samkeppni þá myndu fyrirtæki kannski frekar leita leiða til þess að fara í einhverja hagræðingu í stað þess að veita gengisveikingunni beint út í verðlag. Það eru líka aðrir kostnaðarþættir eins og hrávara, bensín og ýmiss fastur kostnaður. Einnig verðbólguvæntingar og erlend verðþróun. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á þróun verðlags,“ segir Auður Alfa.

Mynd með færslu
Auður Alfa Ólafsdóttir

Veltan í byggingavöruverslunum eykst um 53%

Eftirspurn hefur aukist talsvert í faraldrium eftir ýmsum vörum. Velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum hefur aukist um 21% á einu ári. Spurn eftir raf- og heimilisvörum hefur aukist gríðarlega eða um 53%. Sala á þessum vörum var til dæmis jafnmikil í ágúst og hún var í desember 2019 eða fyrir jól. Sala á heimilisbúnaði hefur aukist um um þriðjung á einu ári og sala í byggingarvöruverslunum hefur aukist um 45%. Auður Alfa segir að svo mikil aukning eftirspurnar geti ýtt undir hækkun verðlags.

„Ef við tökum marvörumarkaðinn sem dæmi. Í byrjun COVID færðist öll eftirspurn til matvöruverslana. Fyrir COVID fór hluti af matvælakaupum með því að fólk fór út að borða á veitingastöðum,“ segir Auður Alfa. Hún bendir líka á að þeim hafi fækkað sem borða í vinnunni. Þetta hafi valdið því að eftirspurn hafi færst að miklu leyti til dagvöruverslana.

„Við erum að sjá að veltuaukningin hjá stórmörkuðum og dagvöruverslunum hefur aukist um 21 prósent á einu ári sem er auðvitað gríðarlega mikil aukning. Fólk eyðir miklu meiri tíma heima og þarf þá kaupa meiri mat. Þá minnkar samkeppnin við aðrar verslanir á matvörumarkaði. Að hluta til eru þær í samkeppni við veitingastaði.“

Auður Afa bendir á að kauphegðun fólks hafi gjörbreyst „Hún hefur gert það í COVID. Hluti af því er auðvitað að fólk er að fara minna til útlanda og hefur kannski meir á milli handanna að minnsta kosti hluti fólks á Íslandi. Við erum að sjá gríðarlega aukningu á mörgum mörkuðum. Við erum til dæmis að sjá að raf- og heimilistækjaverslun hefur aukist um rúm 50% á einu ári sem er gríðarlega mikil aukning.“

Verðbr. á ýmsum liðum í vísitölu neysluverðs Okt. '19- okt. '20 Mars '20- okt. '20 (Covid)
01 Mat- og drykkjarvara 7,4% 6,0%
03 Föt og skór 3,0% 3,1%
051 Húsgögn og heimilisbúnaður 6,5% 7,7%
053 Raftæki 15,5% 13,6%
05611 Hreinlætis og hreingerningavörur 8,1% 8,9%
061111 Lyf 11,1% 10,2%
0711 Bílar 7,8% 8,7%
0712 Bifhjól 12,7% 12,7%
0713 Reiðhjól og fylgihlutir þeirra 8,8% 10,9%
091 Sjónvörp, myndbönd, tölvur o.fl. 4,3% 3,9%
1212 Hreinlætis- og snyrtivörur 9,8% 7,2%
arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV