
Rússneskir friðargæsluliðar komnir til Nagorno-Karabakh
Er þetta í samræmi við vopnahléssamkomulag Asera og Armena, sem gert var fyrir milligöngu Rússa eftir margra vikna blóðuga bardaga sem kostað hafa minnst 1.400 mannslíf.
Fögnuður í Asebaísjan, reiði í Armeníu
Vopnahléssamkomulagið vakti gríðarmikinn fögnuð í Aserbaísjan en reiði og sorg í Armeníu, þar sem íbúar sökuðu stjórnvöld um landráð, réðust inn í stjórnarráðsbyggingar í Yerevan og unnu þar mikil skemmdarverk áður en lögreglu tókst að koma þeim úr húsi.
Samkomulagið þykir enda afar hagfellt Aserum, sem samkvæmt því halda yfirráðum á þeim landsvæðum sem þeir hrifsuðu af Armenum í átökum síðust vikna, auk þess sem Armenar samykktu að draga allt sitt lið frá stórum hluta Nagorno-Karabakh á næstu vikum.
„Ósegjanlega sársaukafullt“ fyrir armensku þjóðina
Eftir undirritun samkomulagsins sagði forsætisráðherra Armeníu, Nikol Pashinyan, að það væri „ósegjanlega sársaukafullt“ fyrir armensku þjóðina og hann sjálfan. Forseti Aserbaísjan, Ilham Aliyev, neri salti í sárin þegar hann sagði samkomulagið jafngilda uppgjöf Armena.
Og til að gera illt enn verra í augum Armena munu rússnesku friðargæsluliðarnir fá liðsauka frá Tyrklandi, öðrum höfuðfjanda armensku þjóðarinnar. Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, sagði Rússa og Tyrki munu gæta friðarins í sameiningu, „með höfuðstöðvar á landi sem bjargað var undan hernámsliði Armeníu.“