Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Markmiðið að bæta þjónustu við dýr og eigendur þeirra

Mynd með færslu
 Mynd: Sabine Leskopf
Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýrihóps sem gerði skýrslu um gæludýramál í borginni, segir það hafa verið meginmarkmiðið að bæta þjónustu og styðja við hagsmuni gæludýra og eigenda þeirra í borginni.

Lagt er til að málefni dýra verði á einni hendi en að sögn Sabine var mikið lagt upp úr því að ræða við alla svo hægt væri skapa það umhverfi sem bætti þjónustuna.

Hún segir gæludýrahald litið jákvæðum augum innan borgarkerfisins enda beri sveitarfélögin mikla ábyrgð í málaflokknum. Markmiðið sé að leggja niður hundaeftirlitið og færa kattaeftirlitið undan meindýraeftirlitinu þar sem það hefur verið um langa hríð.

Sveitarfélög annast eftirlit og skipulag dýrahalds og því sé áríðandi fyrir sveitarfélög að halda utan um fjölda dýra. „Hjá Dýralæknafélaginu er orðinn til góður gagnagrunnur, svokallað dýraauðkenni, og borgin og önnur sveitarfélög vilja vera í góðu samstarfi við félagið til að stuðla að velferð dýra og íbúa,“ segir Sabine. Hún tekur þó fram að Dýralæknafélagið sé einkaaðili sem hafi ákveðinna hagsmuna að gæta.

Sabine segir viðhorf almennings til gæludýra mun jákvæðara en það var fyrir tuttugu eða þrjátíu árum. Fleiri geri sér grein fyrir mikilvægi þess fyrir fólk að eiga dýr, það geti til dæmis spornað við einangrun fólks í viðkvæmri stöðu.

En vegna þess að margskonar sjónarmið séu uppi hafi sú hugmynd komið fram að færa starfsemi dýraþjónustunnar í Húsdýragarðinn. Þar sé mikil þekking og reynsla ásamt því sem almenningur beri mikið traust til sérfræðinga sem þar starfa.

Sabine segir að þangað væri hægt að snúa sér með ágreiningsmál sem upp kunni að koma og leita eftir margvíslegri ráðgjöf. „Við þurfum líka öll að læra að umgangast dýr, ekki síst börnin,“ segir Sabine og líkir því við að kenna börnum að forðast hættur í umferðinni.

Hún telur jafnframt að með því að málefni dýra í borginni verði á einni hendi muni útgjöld lækka. Kostnaður við starfsmannahald muni til dæmis verða minni en verið hefur, með samlegðaráhrifum.

Þá verði vonandi hægt að lækka hundagjaldið, sem nú er almennt um níu þúsund krónur. Það sé í raun ekki hátt hlutfall af þeim kostnaði sem fylgi hundahaldi en mikilvægt sé að hundaeigendum finnist þeir fá góða þjónustu fyrir þá fjárhæð sem þeir reiða af hendi.