Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Logi segir forsætisráðherra hafa mistekist

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Leið forsætisráðherra, um samvinnu við formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi um stjórnarskrána, hefur mistekist. Þetta segir Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. Hann spáir langmestum átökum á þingi um auðlindaákvæðið. 

Ekki samhljómur meðal formannanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna átti fund með formönnum hinna flokkanna um stjórnarskrárfrumvörpin í gær.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagðist í Kastljósi í gær ekki búast við að samkomulag næðist milli flokkanna um frumvörpin.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar lýsti því yfir í gær að hún ætlaði að vera flutningsmaður með þremur af fjórum frumvörpum forsætisráðherra.
Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, segir ekki hægt að styðja frumvörpin óbreytt og Inga Sæland formaður Flokks fólksins ætlar ekki að styðja frumvörpin.

Spáir miklum átökum um auðlindaákvæðið

Logi Einarsson segir að Samfylkingin hefði viljað nýja stjórnarskrá byggða á grunni tillagna stjórnlagaráðs. 

„Það er algerlega ljóst að sú leið sem forsætisráðherra valdi að fara með formönnum flokkanna, hún hefur mistekist. Það næst ekki þessi breiða sátt. Það eru vissulega ýmis ákvæði þar sem að eitt og annað er meiri samhljómur um. En svo eru einstök ákvæði eins og auðlindaákvæðið þar sem að verður bara hreinlega stál í stál í þinginu í vetur,“ segir Logi.

Logi ætlar að ræða við Samfylkingarfélaga og grasrótina á næstu dögum og segir umboð þingmanna sótt til þeirra. Svo eigi eftir að koma í ljós hvað gerist með frumvörp forsætisráðherra í meðförum Alþingis: 

„Það getur vel verið að það náist einhver breyting á málunum í þinginu. Ég tel það ólíklegt en það getur verið. Og við munum þá bara vera opin gagnvart því.“

En eins og frumvörpin liggja fyrir núna, þú sjálfur, gætirðu hugsað þér að samþykkja eitthvað af þeim?

„Það eru þarna mál sem að mér hugnast betur en önnur. Ég er nú samt sannfærður um að stóra málið sem að rætt verður núna á næstunni verður auðlindamálið og þar er auðvitað, þar verður bara fullt stríð.“ 

Logi segir að í frumvarpi forsætisráðherra um auðlindir sé ekkert kveðið á um tímabindingu á nýtingarheimildum og ekki nógu skýrt kveðið á um að þjóðin eigi að fá sanngjarnt afgjald fyrir auðlindina.