Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hjónin sem stofnuðu BioNTech

Mynd: Af vef BioNTech / Af vef BioNTech
Í vikunni var greint frá því að bandaríski lyfjarisinn Pfizer og þýska líftæknifyrirtækið BioNTech væru vel á veg komin í rannsóknum á bóluefni gegn kórónuveirunni. Rannsóknir benda til þess að bóluefni þeirra verji níu af hverjum tíu fyrir COVID -19. Pfizer er með stærstu lyfjafyrirtækjum heims en BioNTech er ekki nafn sem hefur verið á hvers manns vörum fyrr en nú. 

Byrjað var að þróa bóluefnið í upphafi árs og eru klínískar rannsóknir á því komnar vel á veg. Þykir undrum sæta hve hröð þróunin hefur verið, verkefnið líka kennt ljóshraða en öllu jafna tekur það sjö til átta ár að þróa bóluefni. Það er svokallað mRNA bóluefni sem inniheldur genaupplýsingar. Lyfjafyrirtækin höfðu þegar hafið rannsóknir á slíkum bóluefnum gegn flensu þegar Ljóshraðaverkefnið var sett í gang í byrjun árs.

Verkan mRNA-bóluefna

Kórónuveiran notfærir sér gaddaprótein á yfirborði sínu til að komast inn í frumur líkamans og valda sjúkdómum. Kórónunafnið er af göddunum dregið. Á vef Lyfjastofnunar er virkni mRNA- bóluefnis lýst þannig að það innihaldi genaupplýsingar fyrir gaddapróteinin en þær eru hjúpaðar fituögnum sem verja þær niðurbroti. Þegar bóluefninu hefur verið sprautað í mann, smýgur það inn í frumur hans og þær hefjast handa við að smíða gaddapróteinin. Ónæmiskerfi líkamans bregst þá við með því að búa til mótefni og T-frumur gegn próteinunum. Sú vörn virkjast svo aftur ef viðkomandi sýkist af kórónuveirunni. Mótefni og T-frumur drepa þá veiruna og verja þann bólusetta því að sýkjast af COVID-19.

Áttaði sig fljótt á því að þetta yrði faraldur

Í viðtali sem tekið var við Uğur Şahin, forstjóra BioNTech nýlega var hann spurður hvort hann væri forspár og hefði þegar í byrjun árs séð kórónuveirufaraldurinn fyrir. Því svaraði hann neitandi en sagðist vinnu sinnar vegna lesa mikið af vísindagreinum. Hann hefði því þegar í byrjun árs séð umfjöllun um öndunarfærasýkingar í Wuhan-borg í Kína. 

Þessar lýsingar hefðu sannfært hann um að sýkingarnar væru ekki staðbundnar, þær gætu þróast í faraldur og honum og samstarfmönnum hans hefði borið skylda til að bregðast við og þróa bóluefni gegn þessu í krafti þekkingar sinnar og getu. 

Sjálfur segist hann ætla að láta bólusetja sig þegar þess verður kostur en fyrst verði að tryggja bóluefni fyrir þá sem mest þurfa á því að halda - aldraða, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og heilbrigðisstarfsmenn. 

Berast lítt á en komin í hóp ríkustu Þjóðverja

 BioNTech-fyrirtækið var stofnað árið 2008 af hjónunum Uğur Şahin og Özlem Türeci  í Mainz og hefur hingað til lagt aðaláherslu á krabbameinsrannsóknir. Þau eru bæði á sextugsaldri, ættuð frá Tyrklandi, Şahin fluttust til Þýskalands þegar hann var fjögurra ára, en þá fékk faðir hans starf hjá bílaverksmiðjum Ford í Köln. Şahin lærði til læknis við Kölnarháskóla og lauk þaðan doktorsprófi í ónæmisfræði árið 1993. Türeci er fædd í Þýskalandi, faðir hennar sem er læknir flutti þangað frá Istanbúl. Hún er líka læknir, lærði við Saarlandsháskóla í Homburg og þar kynntust þau Şahin. Hún er yfirmaður klínískra rannsókna og maður hennar forstjóri BioNTech. Þau hjónin eru sögð vinnusöm með afbrigðum, á brúðkaupsdeginum brugðu þau sér rétt frá vinnu til að láta gifta sig og sneru svo aftur á rannsóknarstofuna. Þau berast ekki mikið á, búa með dóttur sinni í íbúð nálægt höfuðstöðvum BioNTech og hjóla til og frá vinnu.

Skömmu eftir aldamót settu þau á stofn fyrirtækið Ganymed til að rannsaka og þróa aðferðir sem virkja ónæmiskerfi líkamans til að ráðast á krabbameinsfrumur. Það fyrirtæki var svo selt japönsku lyfjafyrirtæki fyrir fjórum árum fyrir hátt í 1,4 milljarða dollara.

BioNTech stofnuðu þau Türeci og Şahin með austurrískum krabbameinslækni, Christoph Hubert sem er enn í stjórn þess. Þar starfa nú um þrettán hundruð manns. Þó að þau hjónin starfi mjög náið saman og séu stundum nefnd í einu orði hefur það ekki verið raunin í fyrstu fréttum af bóluefninu. Şahin er þar oftast í forgrunni, hann titlaður faðir þýska bóluefnisundursins en móðurinnar að engu getið. Der Spiegel vekur athygli á því að þegar nafn hennar var slegið inn í leitarvél Google í Þýskalandi þá birtist lítill kassi og Türeci titluð eiginkona Ugurs Şahin.

Virði fyrirtækisins eykst

Virði hlutabréfa í fyrirtækinu hefur farið stöðugt upp á við og fór í himinhæðir þegar sagt var frá þróun bóluefnisins. Virði þess nú metið á um 21 milljarð dollara. Þau Şahin og Türeci eru nú komin á lista yfir hundrað efnuðustu Þjóðverjana, sitja þar í 93. sæti og eru þau fyrst Þjóðverja af tyrkneskum uppruna til að komast á þann lista.

Höfuðstöðvar BioNTech eru í húsi númer 12 An der Goldgrube, við gullnámuna og virðist réttnefni. Velgengni þeirra hefur vakið mikla eftirtekt, ekki síst þar sem innflytjendamál eru sígilt þrætuepli í Þýskalandi og fólk af tyrkneskum uppruna oft ekki hátt skrifað. Í íhaldssömum fjölmiðlum er þeim hampað sem dæmi um fyrirmyndaraðlögun að þýsku samfélagi og  aðrir hafa vísað til þess að ef hinn þjóðernissinnaði AfD-flokkur réði þá væri ómögulegt að Uğur Şahin og Özlem Türeci  væru nöfn hæstráðenda í þýska fyrirtækinu BioNTech.