Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gera ráð fyrir 575 milljóna rekstrarhalla á næsta ári

11.11.2020 - 15:56
Mynd með færslu
Séð yfir Kársnes í Kópavogi Mynd: Kópavogsbær
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir næsta ár var lögð fram í gær og tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segist bjartsýnn á að viðsnúningur verði á næsta ári og vonast til að spyrnan frá botninum sé að hefjast.

Ármann segir samstöðu allra flokka í bæjarstjórn við gerð fjárhagsáætlunarinnar vera mikilvægari en nokkru sinni fyrr „enda hefur árið 2020 þróast með allt öðrum hætti en við gerðum ráð fyrir. Heimsfaraldurinn sem enginn sá fyrir hefur sett skýr merki á fjárhagsáætlun 2021“.

Pétur Hrafn Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, segir einnig að áætlunin hafi verið unnin í góðu samstarfi, rétt eins og síðustu fimm ár. Algjör samhljómur hafi ríkt um að sveitarfélagið myndi ekki halda að sér höndunum heldur frekar ráðast í lántöku, fylgja eftir framkvæmdaáætlun bæjarins og verja grunnþjónustu.

Hallinn væri meiri án vænts söluhagnaðar

Áætlunin gerir ráð fyrir 575 milljón króna rekstrarhalla á samstæðu Kópavogsbæjar árið 2021. Í tilkynningu frá bæjarstjórninni segir að meginskýringin á hallarekstrinum séu áhrif COVID-19, enda hafi dregið mjög úr umsvifum í samfélaginu og þar með þeim tekjum sem standa að baki útsvari Kópavogsbæjar, rétt eins og annarra sveitarfélaga. 

Pétur Hrafn segir að flokkarnir í bæjarstjórn hafi nær einungis tekist á um það hvort væntur söluhagnaður af lóðum, sem ekki er búið að selja en er stefnt að því að selja á næsta ári, yrði hafður með í áætluninni. „Það er áætlað að úthluta landi í Glaðheimum á næsta ári, en auðvitað ekki vitað enn hvernig það tekst til,“ segir hann. Hans flokki hafi ekki hugnast að bókfæra söluhagnaðinn, enda hafi það ekki verið gert áður, en ákveðið hafi verið að gera ráð fyrir söluhagnaði lóða upp á hálfan milljarð.  

Pétur segir að ef sú tala hefði ekki verið höfð með hefði verið gert ráð fyrir rekstrarhalla upp á 1,075 milljarð króna. Hann kveðst helst hafa áhyggjur af því að fjárhagsáætlunin verði þá ekki samanburðarhæf við áætlanir síðustu ára, en að rök meiri hlutans fyrir þessu hafi verið að með því að gera ráð fyrir söluhagnaðinum mætti gera ráð fyrir minni lántöku, enda hafi söluhagnaður síðustu ár verið notaður til að greiða niður skuldir.  

Skattar ýmist lækka eða haldast óbreyttir en sorphirðugjald hækkar

Í fjárhagsáætluninni er lagt til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,215% í 0,212% og fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði úr 1,49 prósentum í 1,47 prósent. Hins vegar er lagt til að lóðarleiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, vatnsskattur og  holræsagjald haldist óbreytt. Sorphirðugjald hækkar vegna aukinna útgjalda við sorphirðu og -eyðingu. Útsvar fyrir árið 2021 verður óbreytt eða 14,48%.  

Framlög til velferðarmála aukast um 16 prósent auk þess sem framlög eru aukin til fjárhagsaðstoðar og barnaverndar. 

Stærsti útgjaldaliðurinn er bygging á nýjum Kársnesskóla 

Fjárfest verður fyrir 3,9 milljarða á næsta ári en stærsti einstaki útgjaldaliðurinn er bygging nýs húsnæðis Kársnesskóla, sem hýsa mun leikskóla og yngri deildir grunnskóla. Í bygginguna er gert ráð fyrir að verja 4,1 milljarði króna á næstu fjórum árum og þar af verður einum milljarði varið í það á næsta ári. Þá verður 90 milljónum varið í stækkun Smáraskóla og breytingar á eldhúsi og stjórnunarálmu í núverandi húsnæði skólans 

Í áætluninni er lagt til að 250 milljónum króna verði varið í kaup á félagslegu húsnæði og 100 milljónum í nýtt sambýli að Fossvogsbrún með sjö íbúðum auk þjónustu. Þá stendur til að 100 milljónum króna verði varið í nýtt sambýli með sjö íbúðum auk þjónustu vegna samnings bæjarins við velferðarráðuneytið vegna Kópavogsbrautar 5a.

Bærinn áætlar að verja 200 milljónum króna í endurbætur í Kórnum svo hægt verði að nýta húsnæðið betur í tengslum við það skólastarf sem þar fer fram hjá Hörðuvallaskóla og bætta þjónustu við íbúa í efri byggðum. Gert er ráð fyrir 10 milljónum til undirbúnings fyrir bókasafn og menningarmiðstöð í Kórnum. 

Vonar að ríkisvaldið sjái að sér og komi sveitarfélögum til hjálpar 

Pétur Hrafn segir Kópavogsbæ ekki gera ráð fyrir að verða kominn upp úr kreppunni fyrr en eftir í fyrsta lagi tvö ár. Því vonist hann til þess að ríkisvaldið sjái að sér og komi sveitarfélögunum til hjálpar.  

„Ríkisvaldið virðist ekki vilja koma sveitarfélögunum til hjálpar, heldur bara handvelja út einhver ákveðin sveitarfélög sem þeim hugnast. Eitt sem ríkið gæti gert er að gefa sveitarfélögunum kost á lántöku hjá Seðlabankanum með engum vöxtum. Við getum fengið lán á 1 prósent vöxtum hjá Lánasjóði sveitarfélaganna en ef það verður mikil aðsókn þar gengur það ekki endalaust. Það liggur alveg fyrir að sveitarfélög munu þurfa að sækja fé á lánamarkað,“ segir hann.