Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tilraun til netárásar olli truflun á netsambandi í gær

10.11.2020 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Thomas Lefebvre
Tilraun til netárásar klukkan 11:22 í gær hafði áhrif á netsamband fjölda viðskiptavina Vodafone, og fleiri fjarskiptafyrirtækja, í 45-50 mínútur. Magnús Hafliðason, forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Vodafone, segir í samtali við fréttastofu að árásin hafi beinst gegn einum viðskiptavini fyrirtækisins.

Magnús segir að reglulega eigi sér stað tilraunir sem þessi en að þær hafi nær aldrei áhrif á netsamband viðskiptavina. Í gær hafi verið gerð tilraun til svokallaðrar DDos-netárásar með því að auka verulega álag á samskiptaleiðir. Hann segir að tilraunin hafi komið frá útlöndum en að ekki sé vitað hvaðan, enda sé aðeins hægt að rekja netárásir að takmörkuðu leyti. Nokkurn tíma hafi tekið að loka þeim samskiptaleiðum sem árásin fór um, og því hafi hún truflað netsamband víða í 45-50 mínútur.

Aðspurður segir Magnús erfitt að fullyrða hvað árásarmönnum gekk til en í þessu tilviki hafi árásin ekki beinst gegn Vodafone heldur fyrirtæki með samning við Vodafone. Fyrirtækið hafi einnig samning við önnur fjarskiptafyrirtæki og því hafi viðskiptavinir þeirra einnig orðið varir við árásina.