Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Birnir drepnir af rússneska hernum

10.11.2020 - 06:12
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia - Wikimedia commons
Rússneskir sjóliðar drápu birnu og bjarnarhún sem höfðu prílað ofan í kjarnorkukafbát. Kafbáturinn lá við bryggju á herstöðinni í Vilyuchinsk í Kamchatka, austast í Rússlandi. Í yfirlýsingu frá sjóhernum segir að kallað hafi verið eftir aðstoð veiðileiðsögumanns til þess að svæfa dýrin.

Myndband af drápinu vakti mikla reiði fólks á samfélagsmiðlum sem töldu óréttlátt að drepa birnina. Á myndbandinu heyrist maður segja að ef reynt yrði að bægja þeim frá herstöðinni ættu birnirnir eftir að fara í næsta þorp í matarleit. Ekki var greint frá því hvers kyns bjarndýrin voru, eða hvenær myndbandið var tekið.

Kamchatka-skagi er heimkynni um 24 þúsund bjarndýra að sögn fréttastofu BBC. Þeir sjást reglulega við strendur héraðsins. Í fyrra lamaðist allt bæjarlíf í Ryrkaypiy þegar yfir 50 hvítabirnir örkuðu um þorpið, sem er nyrst í Rússlandi. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV