Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skattaembætti sameinuð – tvöföld refsing útilokuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Embætti skattrannsóknastjóra færist undir Skattinn í nýju frumvarpi fjármálaráðherra. Breytingarnar má rekja til dóma Mannréttindadómstólsins um óheimilar tvöfaldar refstingar við rannsókn og saksókn skattalagabrota. Fjármálaráðherra vonast til að hægt verði að tryggja betri samfellu og utanumhald um rannsókn og meðferð mála sem varða skattaundanskot og skattalagabrot með nýju frumvarpi.

Í frumvarpinu, sem nú liggur fyrir til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda, verður útilokað að hægt verði að beita álagi samhliða stjórnvaldssektum eða refsingum vegna skattalagabrota. Þá er þess vænst að þungi aukist í baráttunni gegn skattsvikum því markmið frumvarpsins mun vera að styrkja eftirlit og rannsóknir skattaundanskota.

Forsögu málsins má rekja til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem leiddu til þess að bráðabirgðaákvæði voru sett í skattalög svo komast mætti hjá að tvöföldum refsingum yrði beitt. Skýrslu var skilað í fyrrahaust og vinnuhópur hefur nú skilað frumvarpi byggðu á henni.

Skattrannsóknastjóri veitir forystu samkvæmt frumvarpinu einingu innan Skattsins, sem ríkisskattstjóri stýrir. Heimildir skattrannsóknarstjóra til rannsóknar á skattalagabrotum breytast ekki.

„Hérna er verið að stíga stærra skref til lengri tíma og gera varanlega breytingu sem við vonumst til að geti tryggt betri samfellu og betra utanumhald um rannsókn og meðferð þeirra mála sem að varða skattaundanskot og skattalagabrot,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.