Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ófatlað fólk sér hlutina stundum skakkt

Mynd: RÚV / RÚV

Ófatlað fólk sér hlutina stundum skakkt

08.11.2020 - 14:31

Höfundar

„Að mínu mati, sem fatlaður einstaklingur, finnst mér fötlun ekki neikvæð,“ segir Krummi, ljósmyndari, sem sýnir á listahátíðinni List án landamæra í ár. Hátíðin er nú haldin í sautjánda sinn og er henni ætlað að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlaða listamenn.

Líkt og með aðra viðburði ársins, eða síðan í vor að minnsta kosti, hefur verið erfitt að skipuleggja hátíðina í kringum þær takmarkanir og höft sem nú eru við lýði vegna heimsfaraldurs. En hátíðin er hafin þrátt fyrir hindranir og dagskráin sérlega metnaðarfull. Víðsjá leit við í Gallerí Port þar sem Hrafn Jónsson, kallaður Krummi, sýnir ljósmyndir á sýningu sem hann kallar Skrölt þrjú. Þar voru þau Krummi og Birta Guðjónsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Birta segir að hindranir hafi alls ekki slegið listamennina út af laginu, sem fatlaðir listamenn séu þau vön að mæta hindrunum og leita lausna frekar en að leggja árar í bát.

„Þetta hefur ekki verið auðvelt verkefni en List án landamæra byggist á hinum ekki svo auðveldu verkefnum fatlaðra og ófatlaðra listamanna í samfélaginu. Það myndi ég segja að væri í takt við að við tókum ákvörðun um að halda hátíðina þrátt fyrir allt og allt á þessum tíma. Það er í takt við margar þær hindranir sem fatlaðir listamenn mæta í samfélaginu,“ segir Birta.

Nærumhverfið verður skyndilega framandi í heimsfaraldri

Sýning Krumma samanstendur af svarthvítum ljósmyndum. Galleríið er opið vegfarendum með auðvitað sótthreinsibúnað á staðnum og því hægt að kíkja við og líta á myndirnar.

Krummi segist hafa byrjað að mynda fyrir þremur árum þegar hann fór að kanna umhverfi sitt sem fatlaður maður með myndavél í hönd. Verkefnið sem nú er til sýnis kallast sannarlega á við samtímann því það hófst í samkomubanninu. „Ég vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga en ákvað að halda áfram að mynda. Ég fann strax að það var óþekkt stemning í minni skynjun,“ segir Krummi um þann óvenjulega tíma sem við lifum. „Mitt nærumhverfi var allt í einu framandi. Ég tók öðruvísi myndir af öðruvísi hlutum og það má segja að það hafi verið minn stuðningsaðili í gegnum þetta ástand.“

Palli var einn í heiminum

Tilfinningin segir hann að sé frekar einmanaleg og margir glíma einmitt við einmanaleikann um þessar mundir. „Þetta er svona Palli var einn í heiminum og eins og þú sérð þá er mikið af mínum mótívum ekki af fólki heldur kannski dýrum. Köttum, hundum og svo mikið af borgarlandslagi,“ segir hann. Krummi byrjar venjulega daginn á að mynda og tekur helst myndir þegar honum líður sem best. Stundum er hann að langt fram eftir degi.

Fjallar um líf sitt sem einstaklingur með fötlun

Þetta er fyrsta einkasýning Krumma og Birta segir það hafi verið sérlega ánægjulegt að fá að vinna með honum. „Það eru akkúrat svona sýningar sem ég myndi segja að hátíðin keppi að. Að skapa vettvang fyrir listamenn sem eiga erindi og eru líka á einhvern hátt að fjalla um, eins og Krummi hefur sagt frá, sitt eigið líf sem fatlaðrar manneskju,“ segir hún. „Þetta eru svo dásamlegar myndir og ég held að áhugi þeirra sem hafa áhuga á ljósmyndum opnist mjög mikið fyrir hans verkum.“

Ljósmyndunin undirstaða lífsins

Sjálfur kveðst hann þakklátur að hafa fengið að taka þátt í hátíðinni og er sérlega ánægður með sýningarrýmið sem hentar myndum hans vel. „Það hefur tekið tíma að leyfa þessu að sökkva inn,“ segir hann.

Myndirnar hans eru persónulegar en hann segir ekki hafa verið erfitt að opna sig á þennan hátt. „Í raun knýr ljósmyndun og mín listsköpun mig áfram í öllum hliðum lífs míns,“ segir hann. Ljósmyndun sé hans helsta ástríða og verkefnið heilandi.

Svífur ekki heldur skröltir um samfélagið

Titill sýningarinnar er sprottinn frá franska orðinu flâneur. Orðið notuðu Frakkar yfir þá tegund manna og hátterni þeirra sem eigruðu um stræti og torg í leit að engu og öllu. „Það er talað um að sá einstaklingur sé fágaður og hann svífi um sitt samfélag, gagnrýni eða lýsi því sem ljósmyndum,“ segir Krummi. Orðið lýsir því Krumma ágætlega en hann ákvað að finna annað orð sem hæfði betur. „Þar sem ég haltra hugsaði ég að ég væri svona klunnalegur flâneur. Þar af leiðandi fór ég að finna orð sem lýsti því og væri með smá húmor líka. Þá kom upp titillinn Skrölt,“ segir hann glettinn.

Hann segir marga þeirra sem rýnt hafa í titilinn hins vegar hafa tengt það við fötlun og því hugsað um það á neikvæðan máta. „En að mínu mati sem fatlaður einstaklingur finnst mér fötlun ekki neikvæð,“ segir hann. Og ófatlaðir einstaklingar sem haldi annað mættu kannski velta því fyrir sér hvers vegna þeir geri það. „Það sem þessi hátíð gerir alltaf er að opna á einhvers konar umræðu og fá fólk til að spekúlera hvort það gæti mögulega verið að hugsa hlutina aðeins skakkt.“

Halla Harðardóttir ræddi við Hrafn Jónsson og Birtu Guðjónsdóttur í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Elska þegar áhorfendum líður illa“

Tónlist

Brú yfir í heim ofurhetjanna