Mynd: ASSOCIATED PRESS - TT News Agency

Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.
Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar í sóttkví
05.11.2020 - 12:13
Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar er kominn í sjálfskipaða sóttkví. Hann tilkynnti þetta á Facebook eftir að einhver nákominn honum greindist með COVID-19.
Forsætisráðherrann kveðst munu vinna að heiman en þar dvelur hann ásamt eiginkonu sinni. Hann stefnir á að fara í skimun svo fljótt sem verða má. „Það er það eina ábyrga í stöðunni,“ segir Löfven.
Hann lýsti jafnframt yfir áhyggjum af því að tekið sé að syrta í álinn í Svíþjóð, „ástandið er grafalvarlegt, æ fleiri sýkjast og deyja af völdum sjúkdómsins.“ Um miðjan júlí tók að draga úr smitum í Svíþjóð og dauðsföllum fækkaði en alls hafa meira en fimm þúsund látist af völdum COVID-19 þar í landi.
Frá miðjum október hefur tilfellum fjölgað verulega að nýju og dauðsföllum sömuleiðis. Á miðvikudag var greint frá 28 andlátum og óttast er að fjöldi látinna nái sjötta þúsundinu í dag.