Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar í sóttkví

05.11.2020 - 12:13
Sweden's Prime Minister Stefan Lofven speaks during a news conference on the Coronavirus, at the government headquarters in Stockholm, Sweden, Sunday, March 15, 2020.  For most people, the new coronavirus causes only mild or moderate symptoms. For some, it can cause more severe illness, especially in older adults and people with existing health problems. (Janerik Henriksson/TT News Agency via AP)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - TT News Agency
Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar er kominn í sjálfskipaða sóttkví. Hann tilkynnti þetta á Facebook eftir að einhver nákominn honum greindist með COVID-19.

Forsætisráðherrann kveðst munu vinna að heiman en þar dvelur hann ásamt eiginkonu sinni. Hann stefnir á að fara í skimun svo fljótt sem verða má. „Það er það eina ábyrga í stöðunni,“ segir Löfven.

Hann lýsti jafnframt yfir áhyggjum af því að tekið sé að syrta í álinn í Svíþjóð, „ástandið er grafalvarlegt, æ fleiri sýkjast og deyja af völdum sjúkdómsins.“ Um miðjan júlí tók að draga úr smitum í Svíþjóð og dauðsföllum fækkaði en alls hafa meira en fimm þúsund látist af völdum COVID-19 þar í landi.

Frá miðjum október hefur tilfellum fjölgað verulega að nýju og dauðsföllum sömuleiðis. Á miðvikudag var greint frá 28 andlátum og óttast er að fjöldi látinna nái sjötta þúsundinu í dag.