Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lokunar- og tekjufallsstyrkir samþykktir án mótatkvæða

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Samþykkt voru sem lög frá Alþingi nú á þriðja tímanum frumvörp fjármálaráðherra um framlengingu á lokunarstyrkjum annars vegar og um tekjufallsstyrki hins vegar.

Eins og fréttastofa greindi frá í síðustu viku hafa hársnyrtar, snyrtifræðingar og aðrir sem gert var að loka sinni starfsemi þegar sóttvarnaaðgerðir voru hertar fyrr í mánuðinum beðið eftir endanlegum mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum. 

Birna Ósk Þórisdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga sagði þá að aðgerðirnar í vor hafi hjálpað mikið til en hún óttast að einhverjar snyrtistofur eigi ekki eftir að lifa ástandið af nú án aðgerða.

Kallaði eftir viðbrögðum við atvinnukreppu

Fyrsta frumvarpið um lokunarstyrki var samþykkt á Alþingi í vor og náði yfir þau fyrirtæki sem gert var að loka vegna sóttvarnaaðgerða í fyrstu bylgju faraldursins. Þau gilda hins vegar ekki yfir þær takmarkanir sem nú eru í gildi og því þurfti að samþykkja ný lög.

Frumvörpin voru samþykkt mótatkvæðalaust. Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar auglýsti hins vegar við atkvæðagreiðsluna eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að bregðast við þeirri djúpu atvinnukreppu sem nú gengi yfir. 

Lokunarstyrkirnir hærri en í vor

Upphæð lokunarstyrks til hvers atvinnurekanda er miðuð við fjölda starfsfólks. Hvert fyrirtæki getur fengið allt að 600 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann vegna lokunar í einn mánuð. Hámarksupphæð til hvers fyrirtækis verður 120 milljónir króna, en í vor var hún aðeins 2,4 milljónir. 

Tekjufallsstyrkir áttu að aðstoða einyrkja og minni fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjumissi vegna faraldursins. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að fyrirtæki sem hafa orðið fyrir minnst 50 prósent tekjufalli á tímabilinu 1. apríl til 30. september, og eru með þrjá eða færri starfsmenn, geta sótt um styrkina. Efnahags- og viðskiptanefnd lagði hins vegar til að styrkirnir verði einnig í boði fyrir stærri fyrirtæki og að miðað verði við 40 prósenta tekjufall en ekki 50 eins og í upphaflega frumvarpinu.

Nú hefst vinna hjá Skattinum sem tekur við umsóknum frá rekstraraðilum vegna styrkjanna.