Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hagvaxtarspá ESB fyrir 2021 lækkuð

05.11.2020 - 11:56
Mynd með færslu
Nærri 614 milljónir 500 evru seðla voru í umferð í desember 2015. Mynd: F. Schwichtenberg - Wikimedia Commons
Afleiðingar annarrar bylgju COVID-19 faraldursins í ríkjum Evrópusambandsins draga úr líkum þess að hagvöxtur á næsta ári verði 6,1 prósent eins og spáð hafði verið. Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá þessu í yfirlýsingu sem birt var í dag.

Spáin hefur verið lækkuð niður í 4,1 prósent. Dombrovskis segir jafnframt að sá litli vöxtur sem leit út fyrir að væri að fæðast eftir fyrstu bylgju farsóttarinnar sé að engu orðinn. Þó eru horfur á að efnahagssamdrátturinn í evruríkjunum nítján verði 7,8 prósent á þessu ári, en ekki 8,7 prósent eins og sérfræðingar ESB höfðu spáð.

Fram kemur í yfirlýsingunni að önnur bylgjan valdi mikilli efnahagslegri óvissu. Ekki er útlit fyrir að hagur Evrópuríkja verði samur og fyrir heimsfaraldurinn fyrr en árið 2022. 
 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV