Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telur flesta sem spila í kössum glíma við fíkn

04.11.2020 - 09:04
Mynd: Kveikur / RÚV
SÁÁ, samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, ætla að draga sig út úr Íslandsspilum og hætta þar með rekstri spilakassa. Framkvæmdastjórn SÁÁ bókaði í síðustu viku að hún væri sammála því að samtökin hætti þátttöku í Íslandsspilum og valin yrði útgönguleið sem verði þjónustu við fólk með spilafíkn. Einar Hermannsson formaður samtakanna segir að stjórn þeirra þurfi að samþykkja endanlega útgöngu.

Íslandsspil sé ekki venjulegt fyrirtæki heldur sameignarfélag sem sé úthlutað leyfi til að reka spilakassana, þarna sé í raun ekki  hlutur til að selja. Því þurfi sennilega aðkomu ráðherra og reglugerðarbreytingu þegar samtökin hverfa úr félaginu og afþakka þessa peninga. 

Einar segir að um 150 leiti á hverju ári aðstoðar hjá SÁÁ vegna spilafíknar og oft blandist hún við alkóhólisma. Hann telur að flestir þeirra sem spili í kössunum glími við fíkn.

Þetta er staðsett á þannig stöðum oft á tíðum að ég get ekki ímyndað mér það, án þess að vita það nákvæmlega að eitthvað venjulegt fólk sé bara heima hjá sér á kvöldin klukkan sjö að segja ég ætla að skjótast út og spila í hálftíma. 

Framkvæmdastjóri Rauða krossins hefur sagt að hann ætli ekki að hætta rekstri spilakassa. Þór Þorsteinsson formaður Landsbjargar segir að það hafi lengi verið rætt innan félagsins hvort spilakassarnir séu fjáröflun sem standa eigi að. Eigendur Íslandsspila hafi í gegnum árin margoft reifað við dómsmálaráðherra hvernig bregðast megi við spilafíkn og spilavanda heildstætt, til dæmis með því að taka upp spilakort en það hafi ekki borið árangur.

Vandinn sé miklu stærri en spilakassar Íslandsspila, Happdrætti háskólans reki líka slíka kassa en vandinn sé ekki síst á netinu, hvorki ríkið né íslensk félagasamtök fái nokkuð fé þaðan. Landsbjörg ætli ekki að hætta rekstri kassanna. Þeir hafa skilað þeim um fjórðungi tekna eða um 180 milljónum króna  í fyrra. Þór segir að það sé ekki hlutverk félaganna að reka spilakassa en þetta sé tekjuleið sem stjórnvöld hafi ráðstafað  til samtakanna.  

 Farsóttin hefur haft sín áhrif á fjáröflun SÁÁ. Hún er öll miklu þyngri og til dæmis var ekki hægt að hefja álfasöluna í ár. Einar segir að þetta sé kannski ekki draumatímasetningin til að hverfa út út starfi Íslandsspila en ný stjórn hafi sett þetta á oddinn. Undanfarið hafa samtökin haldið í horfinu og biðlistar ekki lengst en hann óttast að mikill fjöldi þurfi aðstoð eftir áramót og þegar menn koma út úr kófinu.