Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sjóprófi í máli skipverjanna frestað

Ísafjörður Höfnin Bryggja BátÍsafjörður Höfnin Bryggja Bátur skip Júlíus Geirmundsson ÍS270
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Sjóprófi í máli skipverjanna á togaranum Júlíusi Geirmundssyni hefur verið frestað að ósk útgerðarinnar Hraðfrystihússins Gunnvarar. Sjóprófið á að varpa ljósi á hvað gerðist þegar 22 af 25 skipverjum sýktust af COVID-19. Það átti upphaflega að vera eftir tvo daga, fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.

Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir að útgerðin hafi óskað eftir frestun því skipstjórinn sé enn í einangrun. Bergvin segir að lögmenn gagnaðila neiti að afhenda skipsbók togarans þar sem hún innihaldi persónugreinanlegar upplýsingar. Í hana er skráð allt það sem gerist á skipi. Einnig hafi verið óskað eftir lista yfir alla sem bera eigi vitni í sjóprófinu. Þá vilji útgerðin einnig ræða grundvöll sjóprófs og hvort það stangist á við lögreglurannsókn sem stendur nú yfir. 

Þingað verður sérstaklega um þetta hjá Héraðsdómi Reykjaness 13. nóvember. Þá verður meðal annars skorið úr um hvort bókin skuli afhent. Bergvin segir þess vænst að sjópróf verði þá viku síðar, föstudaginn 20. nóvember. 

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu að skipsbókin hafi þegar verið afhent lögreglu. Togarinn var sótthreinsaður í síðustu viku. Einar segir að verið sé að sinna viðhaldi og stefnt sé að því að skipið fari aftur á miðin fljótlega.