Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjórða stigs fellibylur ógnar Hondúras og Níkaragva

03.11.2020 - 04:11
epa08793717 A handout photo made available by the Honduran Fire Department of rescue work in a flooded area due to Hurricane Eta, in the city of Tela in the Honduran Caribbean, 02 November 2020. Eta which strengthened overnight to become a hurricane, has increased its power in the last hours and is advancing on 02 November through the Caribbean towards Honduras and Nicaragua, the latter country where it will make landfall on the morning of 03 November. Eta now carries maximum sustained winds of 110 miles per hour (175 km / h) and is a Category 2 hurricane but about to become a 'major' hurricane, that is, with winds starting at 111 miles per hour (178 km / h).  EPA-EFE/Honduran fire department /HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Steypiregn er gjarnan undanfari hitabeltisstorma og fellibyla. Eta er þar engin undantekning og víða er úrhellisrigningin sem hann færir með sér þegar farin að valda flóðum. Mynd: EPA-EFE - Honduran fire department
Íbúar Hondúras og Níkaragva búa sig undir hið versta þar sem fellibylurinn Eta, sem skella mun á ströndum landanna í nótt, hefur magnast upp í fjórða stigs fellibyl á leið sinni yfir Karíbahafið. Meðalvindhraði í fárviðrinu mælist allt að 66 metrar á sekúndu og úrkoman er geypileg.

Varað er við lífshættulegum sjávarflóðum, ofsaroki, skyndiflóðum og aurskriðum hvar sem þessi feiknarbylur fer. Spár gerðu ráð fyrir að hann næði landi á norðanverðri Atlantshafsströnd Níkaragva um fjögurleytið í nótt að íslenskum tíma.

Úrhellisrigningar eru þegar farnar að valda flóðum í strandhéruðum í aðdraganda stormsins. Búið er að rýma nokkur þorp og minni bæi á og við ströndina og hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir í hvorutveggja Níkaragva og Hondúras.

Bandaríska fellibyljamiðstöðin spáir því að Eta muni ekki linna látum alveg í bráð og hætta sé á flóðum og aurskriðum af hans völdum á Jamaíka, Cayman-eyjum, Haítí, El Salvador og í Mexíkó suðvestanverðu áður en yfir lýkur. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV