Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Níundi hver Dalvíkingur í sóttkví

02.11.2020 - 20:21
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Átján manns eru í einangrun í Dalvíkurbyggð. Sýnatökum hefur fylgt álag á heilsugæsluna sem tók tíu sinnum fleiri sýni en venjulega fyrir helgina. Fimm starfsmenn á leikskólanum eru smitaðir. Fjölskylda í sóttkví reynir að njóta tímans og halda rútínu.

Hópsmit kom upp á Dalvík í síðustu viku. Þar eru 18 í einangrun og 178 í sóttkví, rúmlega 9% íbúa í Dalvíkurbyggð. Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri segir að allir sem greindust um helgina hafi verið í sóttkví. Mörg sýni hafi verið tekin í dag og á morgun skýrist hvort tekist hafi að ná utan um hópsmitið. 

Fá aðstoð við sýnatöku

Starfsfólk heilsugæslunnar tók um 50 sýni á föstudaginn, tíu sinnum fleiri en á venjulegum degi. Heilsugæslan á Akureyri hefur verið því innan handar og skimað stærstu vinnustaðina. „Þetta er lítill vinnustaður og við ráðum ekki við svona mikinn fjölda en sem betur fer fáum mjög góða aðstoð þar og samvinnu,“ segir Guðmundur Pálsson, yfirlæknir HSN á Dalvík. 

Fimm leikskólastarfsmenn smitaðir

Katrín segir að hópsmitið hafi verið áfall. Fimm starfsmenn á leikskólanum eru smitaðir og allir nemendur og starfsfólk í sóttkví. „Þegar svona mörg börn á þessum aldri lenda í sóttkví þá eru alltaf einhverjir vinnandi einstaklingar sem lenda í sóttkví með börnunum þannig að þetta hefur mjög víðtæk áhrif,“ segir hún.  

Ronja Hólm Rúnarsdóttir, nemandi á leikskólanum, hefur ekkert á móti því að vera í sóttkví enda er hún búin að leira og lita og hafa gaman. Fjölskyldan tjaldaði öllu til fyrsta daginn í sóttkví; „bakað og skorið grasker og leikið og mögulega kláruðum öll trompin á fyrsta degi en svo erum við bara að keppast við að halda rútínu.“ segir Björk Hólm Þorsteinsdóttir, móðir Ronju.

Stór partur af litlu samfélagi

Margir í bænum eru hræddir og stressaðir. Samfélagið er lítið ótrúlega stór hluti af því hafi greinst með veiruna. Björk segir að það sé samhugur í fólki. Það styðji hvert annað og hjálpist að. Björk og Rúnar Jóhannesson, maðurinn hennar, eru sammála um að það hafi ekki verið áfall að þurfa að fara í sóttkví. Þau hafi verið heppin í fyrstu bylgjunni og þá var lítið um smit á Dalvík. Þau hafi hins vegar verið viðbúin því að fara í sóttkví þegar veiran fór að breiða úr sér á Dalvík í síðustu viku.