Yfir 9 milljónir smita í Bandaríkjunum - 94.000 í gær

epaselect epa08540455 A Covid-19 sign is seen at a testing site amid the coronavirus pandemic in Houston, Texas, USA, 11 July 2020. COVID-19 cases continue to surge across Texas.  EPA-EFE/AARON M. SPRECHER
 Mynd: epa
Metfjöldi kórónaveirusmita greindist í Bandaríkjunum í gær, annan daginn í röð, og fjöldi staðfestra COVID-19 tilfella er kominn yfir níu milljónir. Þetta sýna gögn Johns Hopkins-háskólans í Baltimore, sem heldur utan um tölfræði farsóttarinnar í Bandaríkjunum og heiminum öllum. Samkvæmt þeim eru staðfest smit orðin 9.034.295 talsins. Þar af bættust rúmlega 94.000 við í gær, fleiri en nokkru sinni á einum sólarhring.

Fyrra met var aðeins dags gamalt, því ríflega 91.000 greindust með veiruna á fimmtudag. Mest er aukningin í Miðvestur- og Suðurríkjum Bandaríkjanna, þar sem víða er farið að sneyðast um sjúkrarými, samkvæmt frétt AFP.

Trump skýrir fleiri smit með fleiri sýnum

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir enn að sigur á farsóttinni sé í sjónmáli og að skýringin á mikilli fjölgun staðfestra smita sé einkum falin í víðtækari skimun en áður. Þetta stenst enga skoðun, segir í frétt bandaríska fréttavefsins VOX, því fjölgun smita sé hlutfallslega mun meiri en fjölgun sýna sem tekin eru.

Frá 1. október hefur sýnum fjölgað um 13 prósent, en sjö daga meðaltal nýrra smita um 51 prósent á sama tíma, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans. Þá hefur sjúkrahúsinnlögnum vegna farsóttarinnar fjölgað um þriðjung frá mánaðamótum.

Sakar lækna óbeint um að ýkja fjölda COVID-dauðsfalla í hagnaðarskyni

Á kosningafundi í Michiganríki hélt forsetinn því líka fram að læknar högnuðust á COVID-19-dauðsföllum. „Læknarnir okkar fá meiri peninga ef einhver deyr úr COVID. Þíð vitið það, er það ekki?“ spurði forsetinn og hélt áfram: „Ég meina, læknarnir okkar eru mjög klárt fólk.“

Ekkert er hæft í þessari fullyrðingu Trumps, sem Aaron Rupar, blaðamaður VOX, kallar „tilhæfulausa samsæriskenningu um að gráðugir, bandarískir heilbrigðisstarfsmenn oftelji dauðsföll af völdum kórónaveirunnar.“ Minnst 625 bandarískir heilbrigðisstarfsmenn hafa dáið úr COVID-19, samkvæmt tölum bandarísku sóttvarnastofnunarinnar.