Sean Connery látinn

Mynd: Hello Magazine / Hello Magazine

Sean Connery látinn

31.10.2020 - 12:41

Höfundar

Skoski stórleikarinn Sean Connery er látinn, níræður að aldri. Hann var fyrstur manna til að leika njósnara hennar hátígnar James Bond á hvíta tjaldinu.

Connery á áratuga langan feril að baki en auk þess að túlka Bond í alls sjö kvikmyndum lék hann auk þess í myndum á borð við Indiana Jones and the Last Crusade og Hunt for Red October.

Hann fékk einu sinni Óskarsverðlaunin, fyrir besta leik í aukahlutverki í myndinni The Untouchables árið 1988. Fjöldi annarra verðlauna féll Connery í skaut á löngum ferli. 

Fyrstu æviárin

Thomas Sean Connery fæddist í verkamannahverfinu Fountainbrigde í Edinborg 25. ágúst 1930. Fjölskyldan var kaþólsk og bjó við mikla fátækt, faðir hans ættaður frá Írlandi og móðir hans rakti ættir sínar til skosku eyjarinnar Skye. 

Sean Connery átti bróður Neil að nafni, átta árum yngri, sem starfaði lengst af sem múrari en lék í einnig í nokkrum kvikmyndum. 

Connery hefur lýst því hvernig hann gerði sér ekki endilega grein fyrir í æsku sinni að fjölskyldan byggi við kröpp kjör, „okkur skorti ekkert, og höfðum svosem engan samanburð heldur," sagði hann þegar hann tók við verðlaunum bandarísku kvikmyndastofnunarinnar (AFI) fyrir ævilangt framlag sitt til kvikmyndanna árið 2006. 

Skólagöngu Connerys lauk þegar hann var þrettán ára, þá gerðist hann mjólkurpóstur þangað til hann gekk til liðs við konunglega breska sjóherinn þremur árum síðar. Hann fékk magasár og yfirgaf herinn þegar hann var nítján. 

Meðan hann var á sjónum lét hann húðflúra á sig orðin „Mamma og pabbi" og „Skotland að eilífu". Eftir að Connery sneri aftur til Edinborgar stundaði hann ýmis störf, þar á meðal sá hann um að lakka líkkistur hjá útfararstofu í borginni. 

Kvikmyndaferillinn 

Connery stundaði líkamsrækt af kappi og tók þátt í keppninni Hr. Alheimur sem opnaði honum dyr inn í heim kvikmyndanna. Fyrsta myndin sem hann lék í var Lilacs in the Spring frá 1954 en nafns hans er hvergi getið þar. 

Fyrsta aðalhlutverk Connerys var í Another Time, Another Place frá 1958 þar sem hann lék á móti stórstjörnunni Lönu Turner. 

Eftir að hann varð fyrir valinu til að leika njósnara hennar hátignar James Bond í kvikmyndinni Dr. No sem frumsýnd var árið 1962 var Hollywood-björninn unninn.

Sean Connery hefur leikið í ótal stórmyndum á löngum ferli og hefur hlotið fjöldann allan af verðlaunum fyrir frammistöðu sína. Seinast kom hann fram sem þulur í heimildamyndinni Ever to Excel árið 2012. 

Fjölskyldumálin

Connery var tvígiftur. Hann kvæntist áströlsku leikkonunni Diane Cilento árið 1962 en þau skildu 1973 eftir stormasamt hjónaband. Þau eiga einn son, Jason sem fetaði í fótspor föður síns á leiklistarbrautinni. 

Tveimur árum eftir skilnaðinn við Diane gekk Connery að eiga frönsku listakonuna Micheline Roquebrune. Hann var aðlaður árið 2000 og var harður stuðningsmaður sjálfstæðis Skotlands.

Connery bjó á Spáni og Bahamaeyjum undanfarin ár í sjálfskipaðri útlegð vegna þungrar skattbyrði í heimalandinu.  Sean Connery hlaut friðsælt andlát í svefni á heimili sínu á Bahamaeyjum aðfaranótt 31. október.