Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kvöldfréttir: Bakvörður snúinn aftur til starfa

31.10.2020 - 18:51
Mér líður vel með að geta fylgt köllun hjartans, segir sjúkraliði sem varð að hætta í bakvarðasveitinni vegna skertra námslána, en hefur nú snúið aftur á Landspítalann. Reglum Menntasjóðs var breytt eftir að hún lét í sér heyra.

Mörgum fyrirtækjum er að blæða út og atvinnulífið þolir núverandi ástand ekki mikið lengur, segir framkvæmdastjóri SA. Tónlistarmenn óttast að jólatónleikavertíðin sé farin forgörðum.

Tekist hefur að bjarga um hundrað manns úr húsarústum í Izmir í Tyrklandi eftir jarðskjálftann í gær. Að minnsta kosti þrjátíu eru látnir og tuga er enn saknað. Fjöldi íbúa eyjunnar Samos varði nóttinni í tjöldum.

Bandarísku forsetaframbjóðendurnir ferðast nú milli mikilvægustu ríkja landsins, þessa síðustu viku fyrir kjördag, til að ná til kjósenda. Ríflega hundrað ára gömul kona segist kjósa til að finna að hún skipti máli. 

Slátur, hjörtu og nýru er ekki bara herramannsmatur, heldur líka ein ódýrasta máltíð sem hægt er að fá. Nemendur í sjálfbærni á Hallormsstað eru í óða önn við að taka slátur og fylla forðabúr fyrir veturinn.  

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV