KR telur ákvörðun KSÍ ólögmæta

Mynd: RÚV / RÚV

KR telur ákvörðun KSÍ ólögmæta

31.10.2020 - 12:58
Knattspyrnudeild KR sendi í dag frá sér yfirlýsingu undirritaða af formanni þess efnis að félagið krefst þess að ákvörðun stjórnar KSÍ verði felld úr gildi. KR telur hana ólögmæta og að hún fari gegn ákvæðum laga sambandsins.

KR endaði í 5. sæti úrvalsdeildar karla og missir því af Evrópusæti en liðið átti eftir að mæta Stjörnunni í leik sem bæði lið áttu til góða á önnur lið. Kvennalið félagsins féll svo um deild en liðið hefur farið þrígang í sóttkví í sumar og átti tvo leiki inni á flest liðin í deildinni.

Yfirlýsing KR í heild sinni:
Stjórn knattspyrnudeildar KR ákvað á fundi sínum nú morgun að vísa ákvörðun stjórnar KSÍ, um að hætta keppni í Íslands- og bikarmóti, til árýjunardómstóls sambandsins. KR telur að ákvörðun stjórnarinnar, er byggir á reglugerð stjórnar, fari gegn ákvæðum laga sambandsins. Þannig hafi stjórn sambandsins ekki verið heimilt að ljúka keppni líkt og gert var. KR ætlar þannig að ákvörðun sambandsins sé  ólögmæt og mun krefjast þess að ákvörðun stjórnar verði felld úr gildi.

fh. knattspyrnudeildar KR

Páll Kristjánsson, formaður

„Við vorum slegnir og reiðir og urðum fyrir miklum vonbrigðum. Við funduðum í morgun og það var sameiginleg ákvörðun knattspyrnudeildar að áfrýja þessari ákvörðun til áfrýjunardómstóls KSÍ.“

„Stjórn ber að starfa eftir lögum. Stjórn getur ekki sett reglugerð sem er andstæð lögum, við teljum að þeir eigi að fella þetta úr gildi og ég sé bara ekki aðra niðurstöðu raunhæfa,“ sagði Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR eftir ákvörðunina umdeildu.

Nánar er rætt við Pál í spilaranum hér fyrir ofan.

Fréttin hefur verið uppfærð.