Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Hún kemur kjánalega út núna“

Mynd: Úr einkasafni / FB

„Hún kemur kjánalega út núna“

31.10.2020 - 10:02

Höfundar

Fréttakonan Sunna Valgerðardóttir var langt komin með sína fyrstu skáldsögu um bráðsmitandi riðusjúkdóm þegar COVID-faraldurinn skall á og raunveruleikinn tók fram úr skáldskapnum. „Ef ég hefði haft hana innbundna hefði ég þrykkt henni í vegginn,“ segir hún.

Faðir Sunnu er rithöfundur og móðir hennar hefur líka fengist við ritstörf en Sunna fékk fyrst hugmynd að því að skrifa sjálf skáldsögu þegar hún las Eyland eftir samstarfskonu sína Sigríði Hagalín Björnsdóttur á fréttastofunni. Það var árið 2018 þegar hún bjó hún á Svalbarðseyri og hafði gert upp gamlan fiskvinnsluskúr með kamínu. Þar hlustaði hún tvisvar á Eyland á hljóðbók og varð svo impóneruð að hún byrjaði að skrifa sína eigin skáldsögu þegar skammdegið reið yfir. Bókina kallaði hún Taugar og lýsir henni sem sögu um geðveiki, einangrun og óheilbrigð tengsl okkar við ræturnar.

Ráðlagt að horfa á Outbreak

Annar áhrifavaldur frá samstarfskonu Sunnu í Efstaleiti var þáttur af Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur. „Sem fjallaði um ógeðslegan riðusmitsjúkdóm sem breiddist út á Nýju-Gíneu, kúrú eða hláturdauðinn. Sem var afbrigði af mannariðu sem þurrkaði út heilan ættbálk því þau voru svo mikið að éta hvort annað.“ Fyrir var Sunna svo ágætlega fróð um riðusjúkdóma í sauðfé á Íslandi en rannsóknir hér á landi eru framarlega á heimsvísu. „Þarna fékk ég hugmynd að hrollvekju um smitsjúkdómafaraldur sem myndi brjótast út á Íslandi sem væri riða í mönnum. Sem er raunverulegt dæmi en ég ýkti bara smitleiðirnar. Ég hringdi í Harald Briem fyrrverandi sóttvarnalækni og hann ráðlagði mér að horfa á bíómyndina Outbreak með Dustin Hoffman og lesa viðbragðsáætlun Almannavarna við heimsfaraldri inflúensu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni - FB
Sunna hefur starfað við blaða- og fréttamennsku í tíu ár.

Sunna komst yfir viðbragðsáætlunina eftir miklum krókaleiðum árið 2018 en þar er meðal annars að finna áætlanir um að virkja lögregluna til að stöðva för milli landshluta og matarpakka fyrir þá sem eru í sóttkví. „Ég fattaði til dæmis ekki að það væri munur á sóttkví og einangrun. Á þessum tíma var ég komin með fóður í rosalega fína hryllingsskáldsögu í íslenskum realisma, þetta er náttúrulega sauðkindinni að kenna.“ Sunna var næstum tilbúin með bókina og komin með útgefanda í fyrra. „Það sem ég átti í mestum erfiðleikum með voru kaflarnir um þegar allt átti að vera fara til fjandans, fólk farið að deyja og heilbrigðiskerfið á hliðina. Ég var að ströggla mikið með þetta en rumpaði því af.“ Útgefandinn var ekki nógu ánægður með þann hluta sögunnar og fannst helst til stuttaralegur og bókinni var því frestað til 2020.

Mikið um þéttingsföst handabönd

„Sumarið 2019 fór ég ein til Frakklands og ætlaði að klára bókina þar en þá var ég bara á Rívíerunni. Það var dálítið að erfitt að koma mér inn í íslenskan vetur þar sem fólk er að smitast og deyja úr riðu.“ Sunna var vakin og sofin yfir riðu og íslensku sauðkindinni á þessum tíma, las sér til um mismunandi eyrnamerkingar, þéttingu ullarinnar og hvers konar kjöt geti smitað mannfólk af riðu. „Það eru kótiletturnar og sviðin.“ Í byrjun febrúar á þessu ári var ákveðið að gefa bókin út um páskana, þegar COVID var komið á blússandi siglingu. „Þegar ég heyri Víði Reynisson segja að það sé verið að vinna eftir viðbragðsáætlun Almannavarna við heimsfaraldri inflúensu þá bara ... ef ég hefði haft hana innbundna hefði ég þrykkt henni í vegginn.“

Að hennar mati varð bókin ónýt. „Því hún er skrifuð út frá hliðarveruleika, ævintýri, en byggð þó á einhverju sem gæti gerst. En svo bara gerist hluti af þessu. Ef maður myndi skrifa skáldsögu um að jörðin myndi springa og við flyttumst til tunglsins, svo myndi það gerast. Auðvitað verður það allt öðru vísi, og miklu meira spennandi að ímynda sér það.“ Til að mynda fattaði Sunna ekki muninn á sóttkví og einangrun. „Svo eru þéttingsföst handabönd á annarri hvorri síðu hjá mér, sem á illa við núna. Ég líka sem fréttamaður vill segja satt og rétt frá, raunveruleikinn er nógu sturlaður. Það að senda frá sér bók sem er bara kjánaleg í dag. En svo kemur riðan ofan á allt saman.“ Sunna segir mögulegt að bókin komi einhvern tímann út, þó ekki væri nema bara á netinu. „Ef ég hefði sest niður eina helgi hefði ég náð því. En hún kemur kjánalega út að mínu mati.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Erfitt að halda sönsum en maður gerir sitt besta“

Bókmenntir

„Rigningin í Tungunum er alltaf góð“

Mannlíf

„Við fáum kusk í augun aftur og aftur“

Leiklist

Er orðinn að öllu því sem hann þoldi ekki