Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hátt í tvö hundruð tengjast hópsýkingu á Landakoti

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
56 smit greindust innanlands í gær og af þeim voru 39 í sóttkví. Fjórir greindust á landamærunum og átta bíða enn eftir niðurstöðum úr mótefnamælingum frá því fyrr í vikunni. Hátt í tvö hundruð manns tengjast nú hópsýkingu á Landakoti, að sögn sóttvarnarlæknis.

1.687 sýni voru tekin innanlands í gær. 64 liggja inni á Landspítalanum, fjórir þeirra á gjörgæslu. 135 smit er nú hægt að rekja beint til hópsýkingr á Landakoti, 72 hjá starfsmönnumog 63 hjá sjúklingum. 

Landakoti hefur verið breytt í bráðasjúkrahús til að takast á við sýkinguna þar. Fyrir liggur að starfsemin var ekki hólfaskipt vegna manneklu. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans sagði í forstjórapistli á vef spítalans í gær að fólk úr sýkingarvörnum vinni nú að því að skoða orsök smitsins með því að rekja ferla og ræða við yfir hundrað manns. Gert fyrir að niðurstöðurnar liggi fyrir eftir hálfan mánuð.  Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir erfitt að segja til um hvort gripið hefði verið til hetrta aðgerða í gær ef ekki hefði verið fyrir hópsýkinguna á Landakoti.

„Við erum með fleiri sýkingar sem eru að koma upp heldur en bara í tengslum við Landakot. Við erum með sýkingar fyrir norðan. Svo er það bara þannig að það þarf ekki nema eina svona sýkingu inn í viðkvæman hóp eða stóran hóp, þá erum við allt í einu komin með mikla aukningu. Þannig vissulega þá er þetta mjög stór hópur, ætli það sé ekki komin hátt í tvöhundruð einstaklingar sem tengjast beint eða óbeint landakotshópnum. Þannig það munar um minna,“ segir Þórólfur.