Guðni um ákvörðun KSÍ - „Erum með skýrt regluverk“

Mynd: RÚV / RÚV

Guðni um ákvörðun KSÍ - „Erum með skýrt regluverk“

31.10.2020 - 18:48
Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands segir ákvörðunina um að slaufa Íslandsmótinu í knattspyrnu hafa verið erfiða. Stjórn KSÍ tilkynnti í gær að Íslandsmótinu væri lokið og úrslitin stæðu eins og þau væru þá og þegar. Guðni segist skilja ósætti liðanna sem komu illa úr ákvörðun sambandsins.

„Þetta var auðvitað mjög erfið ákvörðun. Við erum búin að vera að fylgjast með stöðunni undanfarnar vikur og tókum ákvörðun fyrir tveimur vikum að halda mótinu áfram sem hlaut mikla gagnrýni þá,“ sagði Guðni í viðtali við RÚV í Laugardalnum í dag. 

Í gær kynnti ríkisstjórn Íslands hertar sóttvarnaraðgerðið til að sporna við útbreiðslu smita hér á landi þar sem meðal annars voru settar reglur um íþróttabann næstu tæpar 3 vikur. Þetta hefði þýtt að glugginn sem KSÍ setti sér til að klára mótin hefði verið lítill sem enginn.
„Núna var svo komið með hertum aðgerðum stjórnvalda að við sáum okkur þennan kost einan að segja þetta gott. Þá erum við bara að horfa í heildarhagsmuni fótboltans, stöðuna sem við erum í og þessar hertu reglur, við erum að fara inn í 5-6 viku af algjöru stoppi í fótbolta.“

„Það er svosem allt hægt en við vorum búin að setja okkur þetta markmið sem var almenn sátt um í byrjun sumars. Þar voru allir á því að það væri rétt að segja stopp einhvern tíman og það var 1.desember, við töldum að ef við gætum klárað 2/3 af mótinu þá gætum við talið það vera nægjanlegt til að kveða á um úrslit í mótinu.“

Mörg félög hafa látið óánægju sína með þessa ákvörðun KSÍ í ljós og nú þegar hafa yfirlýsingar frá Fram, Magna Grenivík og KR ratað inn á borð fjölmiðla. Þessi lið annaðhvort íhuga eða hafa nú þegar áfrýjað ákvörðuninni til áfrýjunardómstóls KSÍ. Guðni segist vel skilja þau félög sem hafi verið í erfiðri stöðu en segir reglur KSÍ jafnframt skýrar.
„Ég virði þessar skoðanir og rökfræðina á bak við þetta, ég virði það. Við erum með skýrt regluverk hvað þetta varðar þannig ef menn vilja vísa þessu til ágreinings samkvæmt okkar nefndum og dómstólum þá bara gera menn það.“

Nánar er rætt við Guðna Bergsson í spilaranum hér fyrir ofan.