Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Aðgerðir hertar í Austurríki

31.10.2020 - 17:52
Austrian Chancellor Sebastian Kurz, of the Austrian People's Party, OEVP, addresses the media during a news conference in Vienna, Austria, Monday, May 20, 2019. Austrian Chancellor Sebastian Kurz has called for an early election after the resignation of his vice chancellor Heinz-Christian Strache from the Freedom Party spelled an end to his governing coalition. (AP Photo/Michael Gruber)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Austurríska ríkisstjórnin tilkynnti í dag að gripið yrði til veigamikilla lokana og útgöngubanns til að bregðast við aukinni útbreiðslu kórónuveirufaraldursins þar í landi.

Takmarkanirnar gilda frá miðnætti þriðjudagsins 3. og til nóvemberloka. Útgöngubann gildir hvern dag um allt land frá klukkan átta að kvöldi og sex að morgni. Fólki frá fleiri en tveimur heimilum verður meinað að koma saman.

„Aðgerðirnar hafa áhrif á íþróttir, menningu og hvers kyns afþreyingu,“ segir Sebastian Kurz kanslari Austurríkis. Veitingastöðum og kaffihúsum ber að loka með þeirri undantekningu að leyfilegt verður að senda heim og sækja á staðina.

Kanslarinn viðurkennir fúslega að aðgerðirnar muni hafa veruleg áhrif á hversdagslíf í landinu. Verslunum verður heimilt að halda starfsemi sinni áfram en það var ekki leyft í fyrri bylgju faraldursins í vor.

Framhaldsskólar og háskólar þurfa að grípa til fjarkennslu en leik- og grunnskólar halda ótrauðir áfram starfsemi sinni. Öll fyrirtæki sem geta látið starfsfólk sitt vinna heima eru hvött til að gera það.

Austurríkismenn komust nokkuð vel frá fyrri bylgju faraldursins en undanfarið hefur tilfellum fjölgað verulega, á sjötta þúsund hefur greinst hvern dag.

Kurtz kanslari hafði áður sagt að allt yrði gert til að komast hjá ströngum aðgerðum en ekki hafi verið komist hjá því að grípa til þeirra nú. Hann kveðst vonast til að hægt verði að slaka á aðgerðum þegar í desember ef vel gengur.