Vinnur að sýningu um húsbrunann á Bræðraborgarstíg

Mynd: RÚV / RÚV

Vinnur að sýningu um húsbrunann á Bræðraborgarstíg

30.10.2020 - 11:09

Höfundar

„Ég er að fjalla um brunann útfrá þeim brotalömum sem afhjúpuðust,“ segir Ósk Gunnlaugsdóttir myndlistarkona. Hún vinnur að sýningu sem nefnist Mannslíf á krónu – uppáhaldsstaðurinn minn er ennþá heima og fjallar um húsbrunann á Bræðraborgarstíg.

Nafn sýningarinnar vísar í nauðsyn þess að eiga tryggan samastað og birtist á skýran hátt í verkunum. „Fólk vill að heimili sitt sé öruggur staður og góður staður, griðastaður fólks,“ segir Ósk. „Hér var verið að bjóða fólki upp á það að eiga sitt heimili við óviðunandi aðstæður.“

Ósk segir fréttaflutning af brunanum hafa verkað sterkt á sig. „Ég var alltaf að hugsa til þessa húss, alltaf að keyra framhjá án þess að eiga í rauninni erindi um götuna og það einhvern veginn þróaðist með mér. Það varð bara einhver svona bolti innan í mér sem vatt upp á sig þangað til ég tók þá ákvörðun að ég hef miðil sem ég get notað til að varpa ljósi á mál sem mér eru hugleikin og mér fannst skipta máli að ég notaði mína rödd til þess að biðja aðra um að horfa á þetta.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Húsið á Bræðraborgarstíg brann í júní á þessu ári.

Sýningin opnar 31. október. Nánari upplýsingar hér.