Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útgáfu nýrra frímerkja hætt

30.10.2020 - 19:15
Mynd: RÚV / RÚV
Tímamót urðu í sögu póstþjónustu hér á landi í gær þegar útgáfu nýrra frímerkja var hætt. Framkvæmdastjóri hjá Póstinum segir að þetta hafi ekki verið léttvæg ákvörðun.

Fyrsta íslenska frímerkið var gefið út árið 1873 eða fyrir 147 árum. Pósturinn hefur séð um frímerkjaútgáfu með sérstökum samningi við ríkið.

Á síðustu tólf árum hefur bréfasendingum hins vegar fækkað um ríflega helming og á sama tíma hefur dregið úr áhuga safnara á nýjum frímerkjum. Þeir voru 15 þúsund í áskrift þegar mest var en eru tvö þúsund nú.

Pósturinn tók þess vegna þá ákvörðun í fyrra að hætta útgáfu nýrra frímerkja til að draga úr kostnaði og þau síðustu komu út í gær.

„Við áttum tvær útgáfur sem var búið að hanna og voru langt komnar þannig að við ákváðum að gefa þær út á þessu ári. Þetta er síðasta útgáfan sem kom út í gær. Ellefu frímerki. Og það er í raun og veru lokaútgáfan sem við gefum út af nýjum frímerkjum, “ segir Sesselía Birgisdóttir framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs hjá Póstinum.

Þetta eru meðal annars frímerki sem sýna íslenskan jarðargróður, dýralíf og 100 ára afmæli Fálkaorðunnar.

Sesselía segir að það hafi ekki verið léttvæg ákvörðun að hætta útgáfu.

„Frímerkjaútgáfa er mikið listform. Við höfum fengið þekkta listamenn til að hanna frímerkin á liðnum áratugum og koma þeim í þetta sérstaka form. Þannig að ákvörðunin var ekki léttvæg,“ segir Sesselía.

Hún segir að þrátt fyrir að útgáfu nýrra frímerkja hafi verið hætt verði áfram hægt að kaupa eldri frímerki á pósthúsum.

Um 250 manns eru í Landssambandi íslenskra frímerkjasafnara. Gísli Geir Harðarson formaður sambandsins segir miður að útgáfunni hafi verið hætt. Íslensk frímerki hafi margsinnis unnið til alþjóðlegra verðlauna og verið góð landkynning.

Gísli segir að margir hafi sýnt áhuga á því að taka við þessari útgáfu.

„Íslandspóstur hefur sinnt þessu hlutverki fyrir hönd ríkisins þannig að það er í sjálfu sér ríkið sem þarf að ákveða hvort útgáfu verður haldið áfram nú þegar Pósturinn er hættur að sinna þessu,“ segir Gísli. 

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV