Slæmur utanvegaakstur í Bjarnarflagi

30.10.2020 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: UST - RÚV
Umhverfisstofnun ætlar að kæra utanvegaakstur í Bjarnarflagi í Mývatnssveit til lögreglunnar. Slæm för eftir akstur mótorkrisshjóla fundust í sendnum mel í eftirlitsferð stofnunarinnar á dögunum.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að förin séu bæði djúp og að melurinn sé útspólaður. Af ummerkjum að dæma hefur aksturinn átt sér stað á allra síðustu dögum. Stofnunin mun vísa þessum náttúruspjöllum til lögreglunnar á Norðurlandi Eystra.

Umhverfisstofnun hafa ítrekað borist ábendingar um skemmdarakstur mótorkrosshjóla í náttúru landsins undanfarin misseri.  Vill stofnunin ítreka að þessi akstur vélknúinna hjóla er brot á náttúruverndarlögum. Sérstök mótorkrosssvæði hafa verið byggð upp víðsvegar um landið í þeim tilgangi að skapa vettvang fyrir þessa iðju.

Arna Hjörleifsdóttir sérfræðingur hjá UST í Mývatnssveit segir að reynt verði að laga ummerkin í samstarfi við landeigendur. Enginn sé grunaður um verknaðinn.

„Það var landeigandi sem kom að förunum, og það veit enginn, eða ég veit ekki til þess að nokkur viti hvenær þetta gerðist. En við erum búin að tilkynna þetta til lögreglunnar og þetta verður vonandi rannsakað.“ segir Arna.

Mynd með færslu
 Mynd: UST - RÚV