Skilur ekkert í fækkun skiptinga

epa08782088 Edinson Cavani (R) of Manchester United is brought on as a substitute by manager Ole Gunnar Solskjaer during the UEFA Champions League group H match Manchester United vs RB Leipzig in Manchester, Britain 28 October 2020.  EPA-EFE/Peter Powell
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Skilur ekkert í fækkun skiptinga

30.10.2020 - 10:55
Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United skilur ekkert í því af hverju ákveðið var að fækka skiptingum í leikjum ensku úrvalsdeildarinnar úr fimm og aftur niður í þrjár. Hann telur ekkert vit í því meðan leikjaálagið er svona mikið og ástandið og skrítið. Félög í deildinni kusu um það hvort leyfðar skyldu þrjár eða fimm skiptingar þessa leiktíðina.

„Ég skil það ekki og trúi því í raun ekki að fleiri hafi kosið með því að fækka skiptingum aftur niður í þrjár. Við þurfum að hugsa um heilsu leikmanna og líta eftir þeim. Þessi leiktíð er sú mest krefjandi. Ég skil sjónarmið þeirra félaga sem kusu gegn tillögunni. En ef þú hugsar um heildina og um bæði andlega og líkamlega heilsu leikmanna þá hefði að mínu mati eina vitræna niðurstaðan átt að vera sú að gefa okkur tækifæri til að hvíla fleiri leikmenn,“ sagði Solskjær meðal annars á blaðamannafundi í dag sem haldinn var vegna leiks United á móti Arsenal á sunnudag.

„Við höfum þegar séð fullt af leikmönnum meiðast í ensku úrvalsdeildinni. Pep [Guardiola] hefur talað um þetta og fleiri stjórar. Við sem knattspyrnustjórar, sem félög og sem starfsmenn þurfum að líta eftir okkar leikmönnum og passa upp á þá. Þess vegna þurfum við að hvíla leikmenn inn á milli. Þannig að já, ég hefði mjög gjarnan viljað hafa áfram fimm skiptingar leyfilegar í hverjum leik,“ sagði Solskjær.