Reglugerð í fullu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis

Mynd: RÚV / RÚV
„Reglugerðin er nánast algjörlega í samræmi við það sem ég lagði til,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í beinni útsendingu eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar. Hann segir að þótt faraldurinn sé ekki á niðurleið sé ekki hægt að segja að hann stefni í veldisvísisvöxt.

„Hann er frekar í línulegum vexti. Við erum með svipaðar tölur milli daga. Þetta sveiflast auðvitað alltaf eitthvað milli daga en við erum ekki farin að sjá þessa niðursveiflu sem við vorum farin að vonast eftir að væri raunin í síðustu viku. Þannig að ég held núna að með þessar hópsýkingar sem við sjáum á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum, þá verðum við að grípa til aðgerða núna,“ segir hann. 

Þurfum vonandi ekki að loka samfélaginu alveg

Aðspurður hvort það hafi komið til greina í hans huga að loka samfélaginu alveg segir hann slíkar aðgerðir algjört neyðarúrræði: „Og ég er ekki viss um að við myndum ná samstöðu um það nema við værum virkilega komin út í horn. Það er ekki komið að því og þess vegna held ég að sé tímabært að grípa til harðra aðgerða núna svo við þurfum ekki að lenda í þeirri stöðu,“ segir hann. 

Þórólfur minnir á að staðan sé slæm í heilbrigðiskerfinu og því þurfi að bregðast við til þess að koma í veg fyrir að grípa þurfi til þess ráðs, sem víða hefur verið gert, að leggja sjúklinga inn í húsnæði eins og íþróttasali. 

Fólk haldi ekki stórar fjölskylduveislur

Þórólfur hvetur fólk til að virða 10 manna samkomumörk: „Og jafnvel færri ef möguleiki er á.“ Hann segir aðgerðirnar snúast um að minnka hópana sem koma saman, halda bili og hreinsa hendur og sameiginlega snertifleti. 

Hann segist bjartsýnn á að allir taki þátt í því að vinna bug á faraldrinum en að það sé forsendan fyrir því að það takist. „Ef fólk fer ekki eftir þess þá skiptir engu máli hvaða reglur við setjum.“