Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nýja Sjáland: Dánaraðstoð leyfð, kannabis bannað áfram

30.10.2020 - 03:58
epa08153011 High Season's Carlos Rios shows the company's new cannabis buds 'Blue Gummies' during the WEEDCon 2020 in Los Angeles, California, USA, 22 January 2020. The 2020 WEEDCon runs on 22 and 23 January.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: epa
Meirihluti kjósenda á Nýja Sjálandi samþykkti lögleiðingu dánaraðstoðar en felldi tillögu um lögleiðingu á almennri neyslu kannabisefna. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um þetta tvennt samfara þingkosningunum 17. október síðastliðinn og voru bráðabirgðaniðurstöður birtar í dag. Samkvæmt þeim samþykktu nær tveir af hverjum þremur kjósendum, 65,2 prósent, löggjöf um virka dánaraðstoð. Rúmur helmingur þeirra sem greiddu atkvæði, 53,1 prósent, var hins vegar mótfallinn lögleiðingu kannabisefna.

Ólíklegt að 480.000 ótalin atkvæði breyti nokkru

Lokaniðurstöður verða ekki birtar fyrr en 6. nóvember, því enn eru ótalin öll utankjörfundaratkvæði og önnur atkvæði sem sérstakar reglur gilda um, samtals um 480.000 talsins.

Hvernig sem þau skiptast er ljóst að virk dánaraðstoð verður heimiluð í landinu frá og með miðju næsta ári, svo mikill er munurinn á þeim atkvæðum sem þegar eru talin.

Ekki er ómögulegt að niðurstaðan verði á endanum sú að meirihluti kjósenda vilji lögleiðingu kannabisefna, en það er afar ólíklegt. Til þess þyrftu minnst 68 prósent ótöldu atkvæðanna að falla með lögleiðingarsinnum, sem stjórnmálaskýrendur syðra segja nánast útilokað.