
Milljarðar í að flytja COVID-sjúklinga milli ESB-landa
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, greindi frá þessu í kvöld, að loknum fjarfundi með leiðtogaráðinu. Kallaði hún jafnframt eftir því að heilbrigðisyfirvöld í hverju landi veittu hinum óheftan aðgang að öllum fyrirliggjandi upplýsingum um gang og stöðu faraldursins, þar sem „góð nýting á fjármunum krefst góðra uppýsinga á móti."
Vilja meiri samræmingu og samstarf
Á fundi leiðtogana var kallað eftir aukinni samræmingu í viðbrögðum við seinni bylgju farsóttarinnar, sem skollið hefur á mörgum löndum sambandsins af miklum þunga, jafnvel meiri en þeirri fyrstu.
Einnig var talað fyrir enn auknu og nánara samstarfi við þróun bóluefnis og von der Leyen, sem er læknismenntuð, sagði víðtæka skimun í öllum löndum sambandsins vera lykilatriði í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn.
Merkel leggst gegn lokun landamæra
Angela Merkel, Þýskalandskanslari, sagði samstöðu og samstillt átak Evrópuríkja afar mikilvægt ef takast ætti að ráða niðurlögum farsóttarinnar. Hún varaði eindregið við lokun innbyrðis landamæra Evrópusambandsins og sagði það hamla baráttunni gegn þessum vágesti fremur en hjálpa.
„Fyrir Þýskaland, sem land í miðri Evrópu, er það sérstaklega mikilvægt að landamærin verði áfram opin, að efnahagskerfið haldi áfram að snúast og við tökumst á við þetta í sameiningu,“ sagði kanslarinn.