Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landakoti breytt í bráðasjúkrahús

30.10.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Landakoti hefur verið breytt í bráðasjúkrahús til að takast á við hópsýkinguna þar. Náist ekki að hefta útbreiðslu faraldursins verða sjúkrahús landsins í afleitri stöðu, segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga Landspítalans, sem COVID-göngudeildin er hluti af.

Súrefnisvélar og röntgentæki á Landakot

„Það er eiginlega búið að breyta Landakoti í bráðasjúkrahús til að sinna þeim sem þar eru,“ segir Runólfur.

„Það er búið að flytja teymi frá lyflækninga-þjónustunni sem sinnir sjúklingum frá COVID göngudeildinni frá Fossvogi yfir í Landakot; læknateymi sem sjá um þessa einstaklinga þar ásamt þjálfuðum hjúkrunarfræðingum. Svo er búið að flytja búnað sem þarf til að veita bráðaþjónustu. Svo að unnt sé að gefa súrefni í því mæli sem þarf svo unnt sé að taka röntgen myndir þegar þarf og svo framvegis“.

Um þrjátíu gulir; með meðaleinkenni

64 liggja nú á sjúkrahúsi vegna COVID-veikinda og hafa aldrei verið fleiri. Tveir voru lagðir inn í gær. Fjórir eru á gjörgæslu. 75 greindust í gær innanlands, 15 utan sóttkvíar. Nú eru smit í öllum landsfjórðungum, þrír eru í einangrun á Austurlandi sem hefur verið smitlaus fjórðungur síðustu vikur. Nærri 2500 sýni voru tekin í gær. Eins og síðustu daga er mesta fjölgun smita í elsta aldursflokknum, þeirra sem eru 80 ára og eldri. Þeim sem eru í einangrun hefur fækkað milli daga og eru nú 996 en voru rétt yfir þúsund í gær. Runólfur segir að af þeim séu um þrjátíu í svokölluðu gulu ástandi með meðaleinkenni.

Afleit staða ef ekki nást tök á fjölgun smita

Enn er unnið að því að ná utan um hópsýkinguna á Landakoti. „Það stefnir í harðari aðgerðir í samfélaginu af því þetta smit nær út í samfélagið. við erum komin á þann stað vegna stöðu sjúkrahúsanna. Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri þar er hópsýking í gangi líka. Við verðum að ná tökum á þessu, annað myndi setja okkur í afleita stöðu,“ segir Runólfur jafnframt.