Íþróttabann framlengt og gildir um allt land

Mynd með færslu
 Mynd: Christopher Bruno - Wikimedia Commons

Íþróttabann framlengt og gildir um allt land

30.10.2020 - 13:26
Íþróttabann verður framlengt og íþróttir verða ekki leyfðar næstu 2-3 vikur. Þetta kom fram á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar sem lauk rétt í þessu.

Íþróttabannið gildir að þessu sinni um allt land ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á við um allt íþróttastarf barna og fullorðinna. KSÍ ákvað fyrir tíu dögum að halda Íslandsmótum fullorðinna áfram ef íþróttir yrðu leyfðar á mánudag, það verður ekki en KSÍ fundar í dag um framhaldið.

Í tilkynningu Stjórnarráðsins kemur fram að ráðherra geti hins vegar veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra keppnisleikja. Ísland mætir Litáen í undankeppni EM í handbolta á miðvikudaginn í næstu viku, 4. nóvember. Sama dag á kvennalið Vals leik í Meistaradeild Evrópu gegn HJL Helsinki.