Geymslur ekki skaðabótaskyldar vegna stórbrunans

30.10.2020 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur staðfesti í dag þrjá héraðsdóma þar sem fyrirtækið Geymslur ehf. var sýknað í tengslum við bruna sem varð í Miðhrauni í apríl 2018. 

Dómar Héraðsdóms Reykjavíkur féllu í júní í fyrra, en stefnendur kröfðust þess að fá alls um tuttugu milljónir í skaðabætur og þrjár og hálfa milljón í miskabætur frá Geymslum vegna brunans. Ágreiningurinn var um það hvort samningur við Geymslur hafi verið samningur um þjónustukaup eða húsaleigu. 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að leigjendur hefðu umráð yfir geymslum sínum og aðgang að þeim hvaða tíma dags sem var. Greitt var fyrir stærð geymslunnar, en ekki fyrir geymslu á tilteknum munum. Því túlkaði dómurinn sem svo að um leigusamning um afnot að geymsluhúsnæði væri að ræða, og því væri fyrirtækið Geymslur ehf ekki skaðabótaskylt vegna þess sem var í geymslunum við brunann. 

Eldsupptök hafi verið í aðliggjandi húsnæði þar sem starfsemi ótengds félags fór fram. Brunavarnir hafi verið fullnægjandi hjá Geymslum og því hafi fyrirtækið ekki sýnt af sér vanrækslu. Tjónið geti því ekki verið rekið til saknæmrar háttsemi fyrirtækisins sem sé því ekki skaðabótaskylt.