Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðaþjónustufyrirtæki hafa fengið 52% stuðningslána

30.10.2020 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ferðaþjónustufyrirtæki hafa fengið 52 prósent allra stuðningslána samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands sem gerð var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið til að kanna nýtingu úrræðisins. Stærstur hluti lánanna hefur farið til fyrirtækja með færri en ellefu starfsmenn. Meðalfjárhæð lána hefur verið um átta milljónir króna.

Stuðningslán eru rekstrarlán með ríkisábyrgð sem veitt eru til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir mestu tekjufalli. Stuðningslán með fullri ríkisábyrgð nema að hámarki tíu milljónum en lán með 85 prósent ríkisábyrgð geta numið allt að fjörutíu milljónum á fyrirtæki.

Í lok september höfðu verið veitt 654 stuðningslán til fyrirtækja, 592 með fullri ríkisábyrgð og 62 með ríkisábyrgð á 85 prósent lánsfjárhæðarinnar. Heildarábyrgð ríkissjóðs nemur núna fimm milljörðum króna. 

Um 27 prósent stuðningslána hefur farið til fyrirtækja í þjónustu, eins og veitingarekstri. Í úttektinni kemur fram að slík fyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki hafi orðið fyrir hvað mestum áhrifum vegna kórónuveirufaraldursins.