Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Eina vitið núna að fara í tiltölulega harðar aðgerðir“

30.10.2020 - 14:15
Mynd: RÚV / RÚV
„Það er eina vitið núna að fara í tiltölulega harðar aðgerðir, ná faraldrinum niður, ná stjórn á stöðunni og einmitt geta þá kannski horft fram á aðeins léttari daga inn í aðventunni,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Von er á frekari aðgerðum til að koma til móts við fyrirtæki sem hafa þurft að loka vegna takmarkana.

Fjöldatakmarkanir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar færast úr tuttugu manna hámarki niður í tíu, samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem kynnt var á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis.

Áfram gildir tveggja metra regla og aukin áhersla verður lögð á grímunotkun. Íþróttastarf leggst af með öllu og sundlaugum verður lokað. Krám og skemmtistöðum verður lokað um allt land og veitingastaðir þurfa að loka klukkan níu á kvöldin.

Katrín segir einhug hafa verið innan ríkisstjórnarinnar með að ráðast í hertar aðgerðir. „Það hefur verið algjör einhugur innan ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaráðstafanir en eðli málsins samkvæmt eykst opin og gagnrýnin umræða um þessar ráðstafanir eftir því sem líður á faraldurinn. Ég lít nú á það sem heilbrigðismerki í okkar samfélagi. Það er sama þróun og við sjáum annars staðar,“ segir Katrín.

Aðspurð hvers vegna hafi ekki verið sett á útgöngubann segir Katrín að sóttvarnalæknir hafi ekki lagt það til. „Raunar hef ég ekki trú á því, eftir því sem ég hef kynnt mér þessi mál víða í kringum okkar, að þær aðgerðir séu að skila betri árangri en það sem við höfum verið að gera hér þar sem við einmitt reynum að fara fram af ákveðinni hófstillingu en hika þó ekki við að grípa til tiltölulega harðra aðgerða með skömmum fyrirvara,“ segir hún.

Gripið verður til frekari aðgerða til að koma til móts við fyrirtæki sem hafa þurft að loka vegna takmarkana. „Það hafa verið kynntar nýjar gerðir lokunarstyrkja sem eru til þinglegrar meðferðar. Það sem við vorum að ræða á ríkisstjórnarfundi í dag varðar tekjufallsstyrki sem þegar eru til skoðunar í þinginu þar sem við hyggjumst leggja til ákveðnar breytingar svo þeir nái til fleiri. Síðan mun fjármálaráðherra sömuleiðis gera grein fyrir því sem við erum að vinna að,“ segir Katrín.

„Við eigum von á því á næstu dögum og vikum að fleiri aðgerðir líti dagsins ljós. Ég vil sérstaklega nefna mál sem varðar tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta og til hverra það nær. Félagsmálaráðherra mun koma með breytingar svo það nái örugglega til allra þeirra sem hafa verið að missa vinnuna eftir að faraldurinn skall á,“ segir hún.