Bandaríska sendiráðið sakar Fréttablaðið um falsfréttir

Mynd með færslu
Jeffrey Gunther ásamt forseta Íslands Mynd: Bandaríska sendiráðið
Bandaríska sendiráðið á Íslandi birti færslu á Facebook í nótt þar sem það sakar Fréttablaðið um að flytja falsfréttir og stunda „ábyrgðarlausa blaðamennsku“. Fréttastjóri Fréttablaðsins furðar sig á framgöngu sendiráðsins.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að starfsmaður sendiráðsins hefði greinst með COVID-19 í síðustu viku og að þrátt fyrir það hefðu allir starfsmenn verið boðaðir til vinnu á sunnudaginn síðastliðinn til að aðstoða við flutning sendiráðsins í nýtt húsnæði við Engjateig í Reykjavík. Jeffrey Ross Gunter sendiherra hefði flýtt flutningunum til þess að tryggja að þeir næðust fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum sem fara fram á þriðjudag. Haft var eftir upplýsingafulltrúa sendiráðsins að hann kannaðist ekki við að smit hefði greinst meðal starfsmanna. 

„Eitt öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík“

Í nýrri færslu á Facebook spyr sendiráðið hvort falsfréttir séu komnar til Íslands og segir Fréttablaðið eiga að skammast sín. „Ömurlegt að Fals-Fréttablaðið væru svo ófagmannlegt og sýnir virðingarleysi með því að nota COVID-19 í pólitískum tilgangi. Bandaríska sendiráðið hefur alltaf verið og er öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík.,“ segir í færslunni.

„Ameríka náði að vígja nýja sendiráðið án COVID-19 smits. Skömmin er núna hjá Fréttablaðinu fyrir ábyrgðarlausan blaðamennska. Löngu eftir vígslu kom upp eitt tilfelli vegna smits í íslenskum skóla. Smittíðnin á Íslandi er með því hæsta í Evrópu,“ segir einnig í færslunni. 

Hér að neðan má lesa færsluna sem var birt bæði á ensku og íslensku:

„Has Fake News Arrived in Iceland?

America has succeeded with the #NewUSEmbassy completed and dedicated while having Zero COVID-19 infections ever in the entire U.S. Embassy history. It is shameful to see Fréttablaðið's irresponsible journalism. Long after the dedication, a single case of COVID-19 was caught by a local employee. The source of the infection was traced back to an Icelandic school outbreak. Iceland has tragically one of the highest COVID-19 rates in Europe. It is terrible and sad that Fake News Fréttablaðið would be so unprofessional and disrespectful in using COVID-19 for political purposes during this crisis. The U.S. Embassy in Reykjavik Iceland has always been and is one of the SAFEST havens from COVID-19 in #Reykjavik.

Eru falsfréttir komin til Íslands?

Ameríka náði að vígja nýja sendiráðið án COVID-19 smits. Skömmin er núna hjá Fréttablaðinu fyrir ábyrgðarlausan blaðamennska. Löngu eftir vígslu kom upp eitt tilfelli vegna smits í íslenskum skóla. Smittíðnin á Íslandi er með því hæsta í Evrópu. Ömurlegt að Fals-Fréttablaðið væru svo ófagmannlegt og sýnir virðingarleysi með því að nota COVID-19 í pólitískum tilgangi. Bandaríska sendiráðið hefur alltaf verið og er öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík.“

Fréttastjóri furðar sig á framgöngu sendiherrans

„Okkur finnst umhugsunarvert að sendiherra erlends ríkis á Íslandi skuli ganga fram með þessum hætti gagnvart frjálsum fjölmiðli,“ segir Aðalheiður Ámundadóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, í samtali við fréttastofu.

 

Aðspurð segir Aðalheiður að sendiráðið hafi ekki haft samband við Fréttablaðið vegna fréttarinnar áður en Facebook- færslan var birt, og hafi enn ekki gert það. „Enda staðfestir sendiherrann það auðvitað í færslunni að það hafi komið COVID-smit í sendiráðinu. Við höfum ekki áttað okkur á því hvað það er sem hann kallar falsfréttir,“ segir hún og bætir við að blaðið hafi haft mjög traustar heimildir fyrir því sem fram kom í fréttinni.

Við gerð fréttarinnar hafi blaðamaður haft samband við upplýsingafulltrúa sendiráðsins sem hafi ætlað að koma spurningum áleiðis til sendiráðsins, en svör hafi aldrei borist. „Svo bárust bara þessi viðbrögð opinberlega,“ segir hún. 

Hún segir blaðið ekki sjá tilefni til að bregðast sérstaklega við ummælunum. „En mér finnst þetta umhugsunarvert. Maður myndi allavega ekki vilja sjá þetta frá sendiherra síns eigin ríkis annars staðar. En þetta er auðvitað meiri dómur yfir honum sjálfum en þeim sem hann er að gagnrýna,“ segir hún. 

Fréttastofu hafa ekki borist svör við fyrirspurnum til bandaríska sendiráðsins vegna málsins. 

 

Sagði öryggi sínu ógnað á Íslandi

Fram kom í fréttum RÚV í júlí síðastliðnum að Jeffrey Ross Gunter teldi öryggi sínu ógnað hér á landi og að hann vildi fá að bera vopn og vera í stunguheldu vesti, auk þess að hafa vopnaða fylgd og skothelda bifreið. Hræðslan sneri að því að hann væri gyðingur.

Bandaríska fréttastofan CBS hefur haft eftir heimildamönnum sínum að Gunter sé haldinn ofsóknaræði. Gunter kom aftur til starfa hér á landi í sumar eftir að hafa dvalið í Bandaríkjunum um nokkurt skeið. Opinbera skýringin á fjarverunni var að kórónuveirufaraldurinn hefði hamlað för, en heimildir CBS herma að Gunter hafi neitað að snúa aftur til starfa hér á landi. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi svo hringt í hann og sagt honum að mæta í vinnuna.

Seinna í júlí vakti sendiherrann athygli fyrir að nota orðið „Kínaveira“ yfir kórónuveiruna þegar hann deildi tísti forseta Bandaríkjanna þar sem hann hvatti landa sína til að vera með grímu. „Sameinuð sigrumst við“ á veirunni, skrifaði hann og lét fylgja mynd af bandaríska og íslenska fánanum.

Fréttin var uppfærð kl. 12:47 með viðtali við Aðalheiði Ámundadóttur.