Uppsagnir hjá Bláa lóninu í þriðja sinn vegna COVID

29.10.2020 - 17:52
Bláa lónið.
 Mynd: Harshil Gudka - Unsplash
Bláa lónið hefur sagt upp 26 starfsmönnum frá og með næstu mánaðamótum. Lónið verður áfram lokað eins og það hefur verið frá því snemma í þessum mánuði, en stefnt er að því að hafa opið um helgar í desember.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, staðfestir þetta við mbl.is. Þar segir hann að einnig sé búið að loka verslun Bláa lónsins í Leifsstöð, en enn verði opið á Laugavegi.

Í febrúar störfuðu um 760 starfsmenn hjá Bláa lóninu. Í lok mars var tilkynnt að fyrirtækið hefði sagt upp 164 starfsmönnum vegna faraldursins. Í lok maí var svo tilkynnt að 403 hefði verið sagt upp. 

Grímur segir við mbl.is að um hundrað starfsmenn séu eftir hjá fyrirtækinu en vonast sé til að hægt verði að endurráða þá starfsmenn sem nú er sagt upp áður en uppsagnarfrestur þeirra rennur út.