Þröng leið til sigurs fyrir Trump

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálafræði, segir að fyrirtæki sem framkvæma skoðanakannanir hafi lært af síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum, ef spár haldist óbreyttar og Joe Biden tapi fyrir Trump á þriðjudaginn sé það mun meira áhyggjuefni fyrir áreiðanleika kannana.

Í byrjun mars var forskot Bidens rétt rúm 4% samkvæmt skoðanakönnunum. Síðan þá hefur það aukist jafnt og þétt og eins og staðan er núna hefur hann tæplega 9% forskot á Donald Trump. Á sama tíma árið 2016 hafði Hillary Clinton 3,5% forskot. Það kom flestum á óvart að Trump stóð uppi sem sigurvegari síðast en getum við treyst skoðanakönnunum í ár? „Það er kannski ágætt að taka eitt skref aftur á bak og velta fyrir okkur á hverju grundvallast skoðanakannanir,“ segir Hulda Þórisdóttir sem er dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Hulda segir skoðanakannanir byggja á líkindareikningi og þeirri hugmynd að hægt sé að ræða til dæmis við þúsund manns og ætla að það endurspegli skoðanir margra milljóna. „Í því liggur svolítið vandamálið. Við getum aldrei verið viss um að endurspeglunin sé nákvæm og sérstaklega ekki þegar það er orðið erfitt að fá fólk til að svara könnunum - og við vitum að það dreifist ekki tilviljunarkennt.“

epa08782161 US President Donald J. Trump acknowledges the crowd after adressing supporters at Goodyear Airport in Phoenix, Arizona, USA, 28 October 2020. Arizona, which has been a traditionally Republican majority state, is in play in the 2020 presidential election with polls showing that Democratic challenger Joe Biden may win the state and democratic Senate candidate Mark Kelly may complete the flip from republican to democrat in major political offices.  EPA-EFE/RICK D'ELIA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump sækist nú eftir endurkjöri.

Þá þurfi alltaf að gera ráð fyrir skekkjumörkum eða svokölluðu öryggisbili. „Vegna þess að skoðanakannanir geta jú aldrei, það er alltaf einhver villa í úrtakinu það er óhjákvæmilegt klipp og niðurstaða skoðanakannana á landsvísu 2016 voru innan öryggisbilsins.“

Kosningakerfið í Bandaríkjunum virkar þannig að gengi frambjóðenda í hverju ríki fyrir sig skiptir meira máli en atkvæðafjöldi á landsvísu - og þar skjátlaðist skoðanakönnununum. Fyrirtæki sem þær framkvæma hafa reynt að draga lærdóm af því. „Og þar hefur komið í ljós að mikilvægt var að leiðrétta betur fyrir menntun. Það er að segja menntun reyndist vera svo sterk forspárbreyta fyrir það hvað fólk kaus í síðustu kosningum. Það er að segja ef þú varst ekki með háskólamenntun þá jukust svo rosalega líkurnar á því að þú kysir Trump. Þeir sem eru ekki háskólamenntaðir eru jafnframt ólíklegri til að svara könnunum þannig að þú þarft að vigta gögnin - gefa þeim meira vægi í niðurstöðum.“

Þröng leið til sigurs fyrir Trump

Nú fimm dögum fyrir kosningar er staðan þannig að Biden hefur einnig forskot þegar við skoðum hvert ríki fyrir sig. Ekki er þó hægt að útiloka sigur Trumps.  „Við skulum segja að leiðin hans til sigurs er þröng, en hún er ekki útilokuð,“ segir Hulda

Hins vegar er forskot Bidens í könnunum nú þannig að það er meira en öryggisbilið. „Þannig að ef að Biden tapar í ár og skoðanakannanir halda áfram eins og þær líta út núna, þá væri það mun meira áhyggjuefni fyrir áreiðanleika skoðanakannana heldur en árið 2016,“ segir Hulda.