Strangar reglur á HM í handbolta í janúar

Men’s EHF EURO 2020 Sweden, Austria, Norway - Preliminary Round - Group E, Iceland vs Russia, Malmo Arena, Malmo, Sweden, 13.1.2020, Mandatory Credit © Anze Malovrh / kolektiff
 Mynd: Anze Malovrh / kolektiff - EHF

Strangar reglur á HM í handbolta í janúar

29.10.2020 - 09:48
HM í handbolta fer fram í Egyptalandi 13.-31. janúar. Vegna kórónuveirufaraldursins verður mótið með öðrum hætti en vanalega en helsta forgangsatriði Alþjóðahandknattleikssambandsins er að tryggja heilsu leikmanna segir á vef sambandsins, IHF.

Sóttvarnaskipulagið á mótinu er því afar vandað og nákvæmt, en leikmenn og starfslið liða verða öll í einangrun og geta ekki hitt neinn á meðan mótinu stendur. Það sama á við alla starfsmenn mótsins, fjölmiðlafólk, sjálfboðaliða, starfsmenn á hótelum og fleiri tengda mótinu. Þá verða leikmenn skimaðir á 72 klukkustunda fresti. Þá verður sérstakt COVID-19 einangrunarherbergi á hótelum liða og þarf hver sá sem finnur fyrir einhverjum einkennum sem geta bent til COVID-19 að fara þangað þar sem læknir verður á staðnum. Ef leikmaður greinist með veiruna er hann sendur í einangrun en getur farið aftur til liðs síns ef hann skilar neikvæðri niðustöðu, jafnvel þó að það séu allt að því tíu dagar sem það getur tekið.

Mun færri áhorfendur verða leyfðir en komast fyrir á leikvöngum. Áhorfendafjöldi verður ákveðinn þegar nær dregur út frá stöðu faraldursins. Fjarlægðatakmörkun verður einn og hálfur metri milli manna þegar því er við komið. Notast verður við grímur og hanska þegar það á við og leikmenn heilsast ekki fyrir eða eftir leiki. Allir nema leikmenn og dómarar skulu vera með andlitsgrímur á meðan leik stendur og allir sem koma til Egyptalands á þessu tímabili verða að hafa fengið neikvætt úr COVID-19 skimun innan við 72 tímum fyrir komu til landsins. Þá munu lið á verðlaunapalli þurfa að setja sjálf á sig verðlaunapeninga. Þá verður notað við fjarskiptabúnað á blaðamannafundum og fjölmiðlafólk þarf að fara reglulega í skimun og getur ekki fylgst með liðum á æfingu.

Þetta er hluti af þeim reglum sem verða í gildi en hægt er að lesa sér betur um þær á vef IHF. Ísland leikur á mótinu og er í riðli með Alsír, Portúgal og Marokkó en fyrsti leikur liðsins er gegn Portúgal þann 14. janúar.

Tengdar fréttir

Handbolti

Grímuskylda á HM í handbolta

Handbolti

Ísland í snúnum riðli á HM í handbolta