Sjósundvinkonur í Vesturbæ sem eru að molna að innan

Mynd: RÚV / RÚV

Sjósundvinkonur í Vesturbæ sem eru að molna að innan

29.10.2020 - 11:05

Höfundar

Vinkonurnar tikka í öll réttu boxin, stunda réttu staðina, fara í fjallgöngur, baka úr lífrænu og heilsa fræga fólkinu, í nýrri farsakenndri skáldsögu Auðar Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur. En þó allt sé slétt og fellt á yfirborðinu býr einhver harmur undir niðri og brotin sjálfsmynd.

Ægisíða er nýi Laugavegurinn og hjarta sögusviðs bókarinnar 107 Reykjavík - skemmtisaga fyrir lengra komna eftir Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur. Aðalsöguhetja bókarinnar hún Hallgerður býr í einu af fallegu húsunum við sjóinn og rekur pöbb í næsta húsi sem hún stofnaði ásamt vinkonu sinni. „Þær reka þennan pöbb sem er að breskri fyrirmynd, svona hverfispöbb. Hann er hjarta hverfisins í sögunni og hlutirnir gerast þarna þar sem allir safnast saman,“ segir Birna Anna í Kiljunni. „Hún tekur sér vald með þessum pöbb, hún er valdamikil kona.“

107 tekur við af 101

Miðbærinn hefur misst sinn sess sem hjarta og lífæð Reykjavíkur og Vesturbærinn hefur tekið við. „Hér er Kaffi Vest og hér safnast saman alls konar vald í samfélaginu. Við erum með fullt af milljónamæringum, stjórnmálamönnum, menningargúrúum og akademikerum,“ segir Auður. „Það er mikil valdfjúsjon á litlum bletti.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bókin er farsakennd og gerist að miklu leyti á bar við Ægissíðu

Byrjaði sem sjónvarpsþáttur

Bókina skrifuðu þær saman án þess þó að vera á sama stað. Skrifin fóru að mestu leyti fram í gegnum skjal sem þær sendu á milli sín í gegnum vefinn enda lítið rými til að hittast síðustu mánuði vegna samkomutakmarkana. Samstarfið gekk nokkuð hnökralaust enda eru þær góðar vinkonur. „Við erum vanar að blaðra saman yfir kaffibolla svo við erum vanar að vera í flæði,“ segir Auður og Birna tekur undir. „Við fórum að tala um þessa hugmynd í vor að semja skemmtisögu. Við byrjuðum á að prófa og svo rann þetta ótrúlega eðlilega á milli okkar.“ Hugmyndina höfðu þær þó fengið nokkuð fyrr, nánar tiltekið fyrir tveimur árum. Þá kviknaði hugmynd að því að skrifa sjónvarpsþátt. Þar varð sögusviðið og persónur bókarinnar til. „Við höfðum áður leikið með þessa karaktera svo við vissum hver heimurinn væri og hver tónninn væri,“ segir Auður. „Við vorum búnar að móta þessar konur. Þær voru þarna svo við þurftum bara að skrifa textann,“ bætir Birna við.

Rauða serían, farsinn og samfélagsádeilan

Konurnar eru í kringum fertugt og þær lenda saman í basli og ævintýrum en líka miklu veseni og stundum minna lýsingarnar á þær sem lesendur rauðu ástarsagnanna þekkja. „Við erum að leika okkur með það,“ viðurkennir Auður. „Það er eins og Bridget Jones leikur sér með Jane Austen og rauðu ástarsögunnar, við leikum okkur með það en líka samfélagssatíruform. Ég er hrifin af höfundum sem skrifa farsa sem fyndnar samfélagsádeilur.“ Og þó stíllinn sé léttur er ádeila í sögunni, svartur húmor og alvarlegur undirtónn.

Sálrænar náttúruhamfarir

Vinkonunum í bókinni er mikið í mun að taka þátt í því sem þykir smart í dag að gera. Þær fara í fjallgöngur og sjósund og sýna sig og sjá aðra og réttu stöðunum í borginni. „Þær taka allar fullan þátt í þessu og eru í raun, sérstaklega Hallgerður, arkitektarnir að þessari stemningu,“ segir Birna. En þó stemningin sé óaðfinnanleg og líf vinkvennanna á yfirborðinu líka má fljótlega sjá að undir niðri er ekki allt með felldu. „Þarna sjáum við muninn á að búa sér til þetta líf sem er svona fullkomið að utan, með þennan front og tikka í öll réttu boxin, en svo það sem er inni í þeim. Við förum alveg inn í þær og þar eru þær kannski að molna,“ segir Birna. „Þar eru kannski náttúruhamfarir,“ segir Auður.

En hversu mikil alvara er á bak við þetta, er þetta kannski brandari? „Já, þetta er brandari eins og lífið er alltaf brandari,“ segir Auður. „Við sjáum farsa í svo mörgu. Þetta snýst um hvernig maður lítur á lífið.“

Myndu ekki þola tilmæli Almannavarna

Ýmsir þjóðþekktir Íslendingar kíkja inn á pöbbinn í sögunni og birtast á götuhornum. Það er gert til að lýsa stemningunni og fanga tíðarandann. „Við erum að leika okkur með hann og kannski að fá útrás fyrir hann,“ segir Auður. „Okkar samtöl gengu svolítið út á að hlæja og skilja og greina tíðarandann og umhverfið í kringum okkur.“

En það má segja þessum sögupersónum til happs að það er ekkert heimsfaraldursástand í bókinni því þær eru miklar félagsverur og ættu erfitt með að einangra sig eins og sóttvarnalög gera ráð fyrir. „Það er mjög vísvitandi sem kófið er ekki inni í bókinni. Það væri önnur saga,“ segir Birna. „Þessar konur ferðast allt í hópum, eru miklar hópsálir og leita í hver aðra. Það er líka, þrátt fyrir farsann og grínið, sterk, raunsönn og elskandi vinkvennasambönd sem við sjáum þegar reynir á. Þessar góðu sterku vikonur eru þegar allt kemur til alls mikilvægar hver annarri.“

Rætt var við Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kostulegar kynlífslýsingar í Vesturbænum

Bókmenntir

Braut jaxl og súperlækaði bróður sinn á Tinder